Sjónarhorn konu á 19. öld
Út er komin bókin Strá fyrir straumi. Ævi Sigríðar Pálsdóttur 1809-1871 eftir Erlu Huldu Halldórsdóttur, prófessor í sagnfræði við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands.
Í bókinni er fjallað um Sigríði Pálsdóttur sem fæddist árið 1809 á Hallfreðarstöðum í Hróarstungu á Fljótsdalshéraði en dó árið 1871 á Breiðabólstað í Fljótshlíð eftir viðburðaríka ævi. Í kynningartexta bókarinnar segir að um Sigríði séu til óvenju ríkulegar heimildir, því umfangsmikið bréfasafn tengt henni hafi verið varðveitt. Á þeim grunni hafi Erla Hulda skrifað bók sem varpi nýju ljósi á 19. öldina. Staldrað sé við aðra hluti en í ævisögum karla og lesendur fá sterka tilfinningu fyrir og hlutdeild í hversdagslífi 19. aldar. Þar sem Sigríður Pálsdóttir umgekkst bæði leika og lærða, hátt setta embættismenn sem bændur, biskupa og niðursetninga, veiti ævisaga hennar óvenju heildstæða mynd af hinni söguríku og mikilvægu 19. öld. Og þar sem sjónarhornið er konu komi ýmislegt nýtt fram og annað sjái lesandinn í nýju ljósi.
Erla Hulda Halldórsdóttir er sérfræðingur í kvenna- og kynjasögu á nítjándu og tuttugustu öld en hefur einnig sinnt rannsóknum á sendibréfum, sagnaritun kvenna og sagnfræðilegum ævisögum. Erla Hulda hefur birt fjölda greina um rannsóknir sínar hér á landi og erlendis. Hún er höfundur bókanna Nútímans konur. Menntun kvenna og mótun kyngervis á Íslandi 1850–1903 og Ég er þinn elskari. Bréf Baldvins Einarssonar til Kristrúnar Jónsdóttur 1825-1832. Hún er jafnframt einn höfunda bókarinnar Konur sem kjósa. Aldarsaga sem kom út árið 2020.