Sjálfbærnistofnun HÍ vinnur norræna handbók um náttúrumiðaðar lausnir
Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands hefur undanfarna 18 mánuði unnið að handbók um stefnumótun fyrir náttúrumiðaðar lausnir í samvinnu við norræna samstarfsaðila. Þeirri vinnu er nú lokið og er handbókin komin í loftið á vefnum www.nbspolicy.org, en PDF útgáfa er væntanleg.
Náttúrumiðaðar lausnir er alþjóðlega viðurkennd nálgun til að leysa stórar samfélagslegar áskoranir, til að mynda að draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og byggja upp seiglu gegn áhrifum þeirra. Að auki draga slíkar lausnir úr hnignun umhverfisins og tapi á líffræðilegri fjölbreytni. Einnig er hægt að nýta náttúrumiðaðar lausnir til að takast á við aðrar samfélagslegar áskoranir, líkt og áhættu og viðbúnað vegna náttúruhamfara, heilsu, velferð og félagslegt réttlæti.
Náttúrumiðaðar lausnir eru enn vannýttar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að nýta þær í auknum mæli og sýna fram á jákvæð áhrif þeirra. Því er til mikils að vinna við að hvetja til og efla notkun þeirra. Handbókin er þróuð með þetta í huga en í henni má finna ráðleggingar til að styðja við samþættingu náttúrumiðaðra lausna í gegnum stefnumótun.
Samráð við sérfræðinga úr stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, fagaðila, rannsakendur og fulltrúa félagasamtaka ásamt innsýn úr fyrri verkefnum sýnir að algengustu hindranirnar fyrir samþættingu náttúrumiðaðra lausna eru fáir fjármögnunarvalkostir, ófullnægjandi samstarf þvert á atvinnugreinar, mismikil þekking á áhrifum náttúrumiðaðra lausna, skortur á stefnumarkandi framtíðarsýn og stjórnsýsluhættir sem falla illa að notkun náttúrumiðaðra lausna, svo dæmi séu tekin. Á hinn bóginn er töluverður uppgangur í nýtingu náttúrumiðaðra lausna og bjóða núverandi stefnur upp á mikil tækifæri. Í handbókinni eru tekin saman dæmi um þetta með það að markmiði að norrænu ríkin læri hvert af öðru.
Handbókin er fyrst og fremst ætluð aðilum sem koma að ákvarðanatöku í opinberri stjórnsýslu en einkageirinn, stofnanir og samtök sem vinna með náttúrumiðaðar lausnir geta einnig notið góðs af handbókinni. Ráðleggingarnar sem kynntar eru í handbókinni ná til margvíslegra stjórntækja og takast á við ólíkar samfélagsáskoranir. Þó ráðleggingarnar séu á almennum nótum og nái þvert yfir sviðið þá eru í handbókinni sett fram sértæk dæmi um hvernig hægt er að aðlaga stefnur sem styðja við náttúrumiðaðar lausnir að staðbundnum aðstæðum og samfélagsáskorunum. Ráðleggingarnar í handbókinni fjalla um lykilþætti í mótun stefnu fyrir náttúrumiðaðar lausnir á eftirfarandi sviðum:
- Menntun, uppbygging þekkingar og vitundarvakning
- Fjármögnun og efnahagslegir hvatar fyrir náttúrumiðaðar lausnir
- Þátttaka hagaðila og samstarf fyrir náttúrumiðaðar lausnir
- Gagnreynd og aðlögunarhæf stjórnun
- Samþætting náttúrumiðaðra lausna í stefnumótun og þverfagleg nálgun
Handbókin var unnin af Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, NIVA, NORION, Ensucon AB og VTT og er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni.
Samhliða stefnuhandbókinni gaf Norræna ráðherranefndin einnig út hagnýtan leiðarvísi fyrir skipulagningu og framkvæmd náttúrumiðaðra lausna sem má finna á nbsguide.org.