Sex tilnefnd til verðlauna Hagþenkis
Sex bækur eftir fræðimenn á þremur fræðasviðum Háskóla Íslands eru tilnefndar til viðurkenningar Hagþenkis 2018, en þar komu tvær út á vegum Háskólaútgáfan. Tilkynnt var um tilnefningarnar á Borgarbókasafninu í Tryggvagötu í gær.
Verðlaun Hagþenkis hafa verið veitt árlega í yfir þrjá áratugi fyrir framúrskarandi fræðirit, námsgögn eða aðra miðlun fræðilegs efnis til almennings. Frá árinu 2006 hafa tíu bækur verið tilnefndar ár hvert og hlýtur ein þeirra viðurkenninguna.
Sem fyrr segir eru sex fræðimenn við Háskóla Íslands tilefndir til verðlaunanna fyrir bækur sínar að þessu sinni en það eru:
Alda Björk Valdimarsdóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild, fyrir bókina „Jane Austen og ferð lesandans. Skáldkonan í þremur kvennagreinum samtímans“. Háskólaútgáfan gefur út. „Ítarleg og áhugaverð rannsókn á ímynd Jane Austen í samtímanum og áhrifum hennar á kvennamenningu, einkum ástarsögur, skvísusögur og sjálfshjálparbækur,“ segir í umsögn viðurkenningaráðs um bókina.
Árni Daníel Júlíusson, sérfræðingur við Sagnfræðistofnun, fyrir bókina „Af hverju strái. Saga af byggð, grasi og bændum 1300–1700“. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan gefur út. „Vönduð sagnfræðirannsókn og frumleg framsetning býður lesandanum í spennandi tímaferðalag aftur til lítt þekktra alda Íslandssögunnar,“ segir viðurkenningaráð.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, er tilnefnd ásamt þeim Herði Kristinssyni og Jóni Baldri Hlíðberg fyrir bókina „Flóra Íslands. Blómplöntur og byrkningar“. Vaka-Helgafell gefur út. „Einstakt bókverk þar sem framúrskarandi fræðimennska, væntumþykja fyrir viðfangsefninu og listræn útfærsla mun sameina kynslóðir í lestri,“ segir viðurkenningaráð í umsögn sinni.
Magnús Þorkell Bernharðsson, gestaprófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, fyrir bók sína „Mið-Austurlönd. Fortíð, nútíð og framtíð“ sem Mál og menning gefur út. Viðurkenningaráð segir um bókina: „Sérlega aðgengileg og fræðandi bók um nútímasögu Mið-Austurlanda, sögu- og menningarlegt samhengi nýliðinna viðburða og togstreitu milli heimshluta.“
Ólafur Kvaran, prófessor við Deild faggreinakennslu, fyrir bókina „Einar Jónsson myndhöggvari. Verk, táknheimur og menningarsögulegt samhengi“. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. „Glæsileg og ríkulega myndskreytt bók um hugmyndafræði verka Einars og tengsl hans við alþjóðlegar listastefnur og íslenska menningu á fyrstu áratugum 20. aldar,“ segir í umsögn viðurkenningaráðs.
Sverrir Jakobsson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, fyrir bókina „Kristur. Saga hugmyndar. Hið íslenska bókmenntafélag gefur út. „Fróðleg og sannfærandi framsetning á því hvernig hugmyndir manna um Krist þróuðust og breyttust gegnum aldirnar í meðförum þeirra sem á hann trúðu,“ segir í umsögn viðurkenningaráðs.
Þess má geta að tilnefndir höfundar munu kynna bækur sínar þann 2. febrúar kl. 15-17 á Reykjavíkurtorgi Borgarbókasafnsins við Tryggvagötu. Viðurkenning Hagþenkis verður síðan veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni í byrjun mars og nemur verðlaunafé 1.250.000 kr.
Viðurkenningaráð Hagþenkis er skipað félagsmönnum af ólíkum fræðasviðum til tveggja ára í senn og stendur það að valinu. Viðurkenningarráðið nú skipa: Auður Styrkársdóttir, Ásta Kristín Benediktsdóttir, Henry Alexander Henrysson og Svanhildur Kr. Sverrisdóttir.