Skip to main content
7. júlí 2025

Samstarfssamningur við MIT opnar tækifæri fyrir meistaranema HÍ

Samstarfssamningur við MIT opnar tækifæri fyrir meistaranema HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og og Massachusetts Institute of Technology (MIT) í Boston hafa gert með sér samstarfssamning sem opnar ný tækifæri fyrir meistaranema við Háskóla Íslands til að taka hluta náms sín við þennan virta bandaríska skóla.

Bhaskar Pant og Malgorzata Hedderick, sem bæði starfa hjá MIT Professional Education, armi innan MIT sem annast m.a. tengsl við atvinnulíf og alþjóðastarf, heimsóttu Háskóla Íslands nýverið og undirrituðu samstarfssamninginn ásamt Jóni Atla Benediktssyni, þáverandi rektor Háskóla Íslands. Þetta var síðasti alþjóðlegi samningurinn sem Jón Atli undirritaði í embætti rektors. 

Samningurinn kveður á um aðgengi að svokölluðu Advanced Study Program við MIT, sem gerir meistaranemendum við Háskóla Íslands kleift að stunda nám þar í eitt eða tvö misseri. Námið er metið inn í námsferil þeirra við HÍ. Hér er því á ferðinni er einstakt tækifæri sem stendur meistaranemum í fjölbreyttum námsgreinum til boða.

Auk þáverandi rektors sátu þau Sigurður Magnús Garðarsson, forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, Magnús Þór Torfason, forseti Félagsvísindasviðs, Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri Alþjóðasviðs, og Magnús Gunnlaugur Þórarinsson, verkefnisstjóri á Alþjóðasviði, fundinn með þeim Pant og Hedderick.
 

Fulltrúar MIT og HÍ við undirritun samningsins