Skip to main content
20. október 2025

Samstarf við Háskólann í Tromsö eflt

Samstarf við Háskólann í Tromsö eflt - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands og Háskólinn í Tromsö – Norðurslóðaháskóli Noregs (UiT) hafa gert með sér nýtt samkomulag um samstarf sem er m.a. ætlað að fjölga tækifærum til nemenda- og starfsmannaskipta og efla samvinnu um rannsóknir. Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Dag Rune Olsen, rektor UiT, undirrituðu samkomulagið í síðustu viku.

Fulltrúar UiT voru staddir hér á landi í liðinni viku í tengslum við hið árlega Hringborð norðurslóða (Arctic Circle) í Hörpu og það var á vettvangi þess sem samningurinn var undirritaður. Fjölmörg tækifæri eru til samstarfs milli skólanna sem starfa báðir á norðlægum slóðum og leggja áherslu á að styðja nærsamfélög sín í glímu við ýmiss konar áskoranir, svo sem á sviði loftslagsmála, heilbrigðismála, efnahagsmála, tungumála og í þróun fjölbreytts atvinnulífs.

Samkomulagið gerir ráð fyrir að samstarf skólanna tveggja geti náð til þróunar sameiginlegra rannsóknarverkefna, nemendaskipta í bæði grunn- og framhaldsnámi, kennaraskipta og sameiginlegrar nýtingar innviða. Einnig kveður samkomulagið á um að skólarnir tveir standi saman að ýmsum viðburðum tengdum vísindum, svo sem námskeiðum, ráðstefnum, málstofum, fyrirlestrum og vettvangsferðum.

Alþjóðasviðum beggja skóla verður falið að hafa umsjón með þróun samstarfsins og er gert ráð fyrir að viðaukar verði gerðir við samkomulagið um einstök samstarfsverkefni.

HÍ og UiT hafa átt í samstarfi frá árinu 2017, ekki síst á vettvangi University of the Arctic, en nýju samkomulagi, sem er til fimm ára, er ætlað að efla samvinnu stofnananna tveggja enn frekar.

Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Dag Rune Olsen, rektor UiT, undirrituðu samkomulag um aukið samstarf háskólanna í tengslum við hið árlega Hringborð norðurslóða.