Samið um fullnaðarhönnun á húsi Heilbrigðisvísindasviðs HÍ
Samið hefur verið við hóp undir forystu verkfræðistofunnar Verkís um fullnaðarhönnun nýs húsnæðis Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands sem rísa mun á Hringbrautarsvæðinu í nágrenni nýs Landspítala.
Hönnunarhópinn skipa auk Verkís, TBL arkitektar (T.ark arkitektar ehf., Batteríið sf. og Landslag ehf.) og John Cooper Architecture (JCA). Fjórir hópar öðluðust þátttökurétt í lokuðu útboði vegna hönnunar hússins og skiluðu þeir allir inn fullgildri tillögu í útboðinu. Matsnefnd sem skipuð var fimm aðilum lagði mat á innsendar tillögur og gaf þeim einkunnir samkvæmt fyrir fram ákveðnu matskerfi útboðsgagna.
Gert er ráð fyrir að Háskóli Íslands flytji stóran hluta af starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs í byggingu sviðsins á Hringbrautarsvæðinu. Þar er um að ræða endurbættan Læknagarð og nýbyggingu sem mun rísa sunnan nýs meðferðarkjarna Landspítala og tengjast Læknagarði. Starfsemi Heilbrigðisvísindasviðs verður því í framtíðinni í þessari nýju sameinuðu byggingu, Eirbergi og Nýja Garði. Auk nýbyggingarinnar, sem er um 8.300 fermetrar, á að breyta skipulagi og starfsemi í Læknagarði jafnhliða því sem tenging verður mikil milli húsanna og á fólk vart að merkja í hvorri byggingunni það er statt.
„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Heilbrigðisvísindasvið og við erum ánægð með að verkefnið sé komið á þennan stað. Þetta verkefni, sem við köllum Heilbrigðisvísindagarða, spilar lykilhlutverk í að efla heilbrigðisvísindakennslu og rannsóknir við Háskóla Íslands til næstu ára og áratuga. Við höfum lengi beðið eftir úrbótum í húsnæðismálum og horft til þess að bæta rannsóknarrými og sameina sem mest af kennslu sviðsins á einum stað. Sálfræðideild sem er mikilvægur hluti starfsemi sviðsins verður þó áfram með starfsemi í Nýja Garði. Vinningstillagan leysir vel úr okkar þörfum til að ná okkar markmiðum og við erum jákvæð og spennt fyrir framvindunni, eins og með allt Hringbrautarverkefnið,” segir Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.