Samdi kennslubók í íslensku fyrir slóvakískumælandi

Út er komin kennslubókin Islandčina ma fakt baví! Jazyková príručka pre začiatočníkov (Ég fíla íslensku! Kennsluhefti fyrir byrjendur) eftir Branislav Bédi, verkefnisstjóra á íslenskusviði Árnastofnunar og stundakennara í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands.
Kennslubókin er ætluð slóvakískumælandi nemendum sem vilja kynnast íslenskri tungu á fjölbreyttan hátt. Bókin byggir á hugmyndum um málakennslu í gegnum skynjunarfæri (e. sensory pedagogy) og inniheldur þýðingu texta úr íslensku yfir á slóvakísku og leggur áherslu á lestur og tal á A1-stigi samkvæmt Samevrópska tungumálarammanum. Þar af leiðandi hentar bókin til sjálfsnáms fyrir byrjendur.
Branislav Bédi er fæddur og uppalinn í Slóvakíu þar sem hann stundaði nám í enskum og þýskum fræðum með áherslu á kennslufræði tungumála við Konstantín-háskóla í Nitra. Árið 2006 fékk hann styrk íslenskra stjórnvalda til að stunda BA-nám í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands. Síðan þá hefur hann lokið meistara- og doktorsnámi við sama háskóla og vinnur nú á Árnastofnun þar sem hann sér m.a. um kennslu íslensku við erlenda háskóla og sinnir rannsóknum á sviði íslensku sem annars máls.
Útgefandi bókarinnar er Rannsóknarstofa í máltileinkun við Háskóla Íslands. Teikningar gerðu Maroš Ružička og Jakub Gašpar. Útgáfan nýtur stuðnings „Štúdio 25: Island“ (FBR03-098) sem er fjármagnað af Norskum samstarfssjóðum fyrir tímabilið 2014–2021
Smellið hér til að sækja kennslubókina í rafrænni útgáfu án endurgjalds.
