Ritstýrir nýrri bók um sveitar- og bæjarstjóra á Norðurlöndunum
Eva Marín Hlynsdóttir, prófessor og deildarforseti Stjórnmálafræðideildar HÍ, er meðal ritstjóra bókarinnar „Managing Nordic Local Governments: Paradoxes and Challenges of the Municipal Chief Executive Officer“ sem kom nýverið út hjá hinu virta forlagi Palgrave. Bókin er aðgengileg öllum á netinu.
Bókin er afrakstur norrænnar samanburðarrannsóknar á sveitar- og bæjarstjórum á Norðurlöndunum. Almennt má segja að sveitar- og bæjarstjórnir í löndunum njóti meira sjálfstæðis en sambærilegar stjórnir annars staðar í heiminum en skort hefur á nýjar rannsóknir þar sem borin eru saman hlutverk bæjar- og sveitarstjóra í hinum norrænu ríkjum og þróun þeirra ásamt samspili stjórnendanna og tengslum við innri og ytri hagaðila.
„Rannsóknin byggist á eldri grunni sem lagður var með stórri samanburðarrannsókn á bæjar- og sveitarstjórum upp úr síðustu aldamótum, sem leidd var af Paul- Erik Mouritzen og James Svara. Síðan þá hefur lítið verið um samanburðarrannsóknir á stöðu leiðtoga innan stjórnsýslu sveitarfélaga. Þessari rannsókn er ætlað að bæta úr því,“ segir Eva Marín sem ritstýrir bókinni ásamt Morten Balle Hansen frá Danmörku, Önnu Cregård frá Svíþjóð, Dag Olaf Torjesen frá Noregi og Siv Sandberg frá Finnlandi.
Samanburður á niðurstöðum þeirra og niðurstöðum Mouritzen og Svara leiðir í ljós að sögn Evu Marínar að meginkjarninn í viðhorfum og stöðu norrænna bæjar- og sveitarstjóra hefur haldist mjög stöðugur á þessari öld þrátt fyrir að mjög miklar breytingar hafi orðið á umfangi og verkefnum sveitarfélaga.
Að sögn Evu Marínar er bókin hugsuð fyrir öll þau sem áhuga hafa á stöðu leiðtoga á sveitarstjórnarstiginu, jafnt almenna lesendur og fræðafólk og nemendur á sviðum eins og opinberri stjórnsýslu, stjórnun og forystufræðum.
Bókin er hluti af ritröðinni Palgrave Studies in Sub-National Governance og er í opnum aðgangi á netinu. Hægt er að nálgast hana hér.