Ritstýrði greinasafni um umhverfisheimspeki og umhverfishugvísindi
Út er komin bókin Elemental-Embodied Thinking for a New Era í ritstjórn Sigríðar Þorgeirsdóttur, prófessors í heimspeki við Deild heimspeki, sagnfæði og fornleifafræði HÍ. Aðrir ritstjórar bókarinnar eru Lenart Skof og Sashingula og útgefandi er Springer forlagið. Bókin hefur að geyma safn greina á sviði umhverfisheimspeki og umhverfishugvísinda.
Meðal greinarhöfunda eru þekktir náttúruheimspekingar eins og Timothy Morton og Michael Marder sem og rannsakendur í alþjóðlegu verkefni innan heimspeki um líkamlega gagnrýna hugsun eins og Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, dósent við Listaháskóla Íslands, Ole M. Sandberg, nýdoktor við Heimspekistofnun HÍ, Donata Schoeller, gestaprófessor í heimspeki við HÍ og Emil Månsson, doktorsnemi í heimspeki við HÍ. Gísli Pálsson, prófessor emeritus í mannfræði við Félagsvísindasvið HÍ, skrifar formála að bókinni.
Greinarhöfundar kynna rannsóknir á líkamlegri og náttúrutengdri hugsun og frumbyggjaheimspeki um stöðu okkar innan náttúrunnar en greinarnar eiga það sammerkt að svara ákalli um þörf fyrir breytt viðhorfi til umhverfisins á tímum loftslagsbreytinga. Efni bókarinnar er til marks um hvarfið að reynslu og tilfinningum í rannsóknum á hugsun, skilningi og þekkingarverunni almennt. Tilgangurinn er að leita nýrra leiða til þess að tengja betur við okkur sjálf og allt sem lifir í hugsun og skilningi sem líkams- og tengslaverur.