Ritstýrði bók um kínverskt samfélag, menningu og heimspeki

Út er komin bókin Imaginary Worlds and Imperial Power. The Case of China í ritstjórn Geirs Sigurðssonar, prófessors í kínverskum fræðum og þvermenningarlegri heimspeki við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ľubomír Dunaj, rannsakanda við stjórnmálafræðideild Heimspekistofnunar Tékknesku vísindaakademíunnar. Útgefandi er State University of New York Press.
Bókin geymir safn ritgerða um kínverskt samfélag, menningu og heimspeki og veitir yfirgripsmikla sýn á Kína nútímans. Flestar ritgerðirnar byggja á nálgun og greiningaraðferðum Jóhanns P. Árnasonar, heimspekings og heiðursdoktors við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði við Háskóla Íslands. Í bókinni er fjallað um sögu Kína og heimspeki- og stjórnmálahefðir með langa sögu sem setja enn mark sitt á kínverskt samfélag og sjálfsmynd. Þá horfa sumir höfundar gagnrýnum augum á þröngt sjónarhorn á Kína sem einkennir stundum umræðu og viðhorf á Vesturlöndum og hvernig það getur hindrað góð samskipti milli austurs og vesturs. Einnig er nýju sjónarhorni varpað á kínversk viðhorf til félagsfræði og stjórnmálaheimspeki og þeirri hugmynd kastað fram að þau geti leitt til umbóta í fræðilegum samskiptum innan vestrænnar menningar.
Geir Sigurðsson hefur starfað við Hugvísindasvið Háskóla Íslands síðan árið 2007 og setti á stofn námsleið kínverskra fræða við Háskóla Íslands sem hann hefur stýrt síðan. Hann hefur verið prófessor í kínverskum fræðum síðan árið 2016. Rannsóknir Geirs hverfast einkum um siðfræði, samfélagsheimspeki, heimspeki menntunar og nýverið þvermenningarlega heimspeki öldrunar. Meginrit hans er bókin Confucian Propriety and Ritual Learning: A Philosophical Interpretation, sem kom út hjá State University of New York Press árið 2015. Geir hefur einnig þýtt ritið Hernaðarlist Meistara Sun úr frummálinu (fornkínversku) og skrifað við það ítarlegar skýringar og inngang. Einnig hefur hann birt á sjötta tug greina um ýmis heimspekileg efni, flest á ensku.
Eftirfarandi er þýðing á útdrætti úr inngangi Geirs að bókinni:
„Ritgerðarsafni þessu er ætlað að vera smávægilegt framlag til þeirrar fræðilegu endurskoðunar sem nú á sér stað í þeirri viðleitni að öðlast ásættanlegan skilning á Kína. Það inniheldur tíu kafla eftir jafnmarga fræðimenn sem nálgast Kína út frá fjölbreyttum en jafnan víðum og þverfaglegum sjónarhornum. Kaflarnir fjalla á ýmsan hátt um kínverska menningu, samfélag, stjórnmál, þróun og nútímavæðingu út frá sjónarhorni siðmenningargreiningar, þar sem sérstaklega er stuðst við þær nálganir og þau hugtök sem Jóhann P. Árnason hefur þróað í fræðilegum verkum sínum – þótt þau séu í sumum tilfellum líka tekin gagnrýnum tökum. Hið þverfaglega eða makrófélagsfræðilega svið siðmenningargreiningar hefur verið sérlega afkastamikið á undanförnum áratugum og sameinað fræðimenn úr fjölbreyttum greinum til að varpa ljósi á þróun, ferla og mynstur í ýmsum félagslegum samsetningum nútímans – án þess að taka hugmyndafræðilega afstöðu og vissulega án þess að falla í gryfju þeirrar eðlishyggju og hlutgervingar sem leitt hefur til hinnar alræmdu, hugsanlega skaðlegu og algjörlega óþörfu hugmyndar um „árekstur siðmenninga“.
Nálgun Jóhanns sjálfs hefur lagt áherslu á siðmenningarkenningu af makrófélagsfræðilegum toga sem byggist á fjölhyggjunálgun. Hún mætir þeirri áleitnu áskorun „að tengja saman greiningu á langtíma þróun og umbreytingum við greiningu á varanlegum en ekki óbreytanlegum menningarmynstrum“ og kemur sér um leið hjá því að líta á siðmenningar „sem lokaða heima með það að markmiði að setja fram og þróa kenningar um gagnkvæm mótandi tengsl milli siðmenningarsamsteypa.“ Greinasafnið leitast við að stuðla að opinni, fjölhyggjukenndri, þversiðmenningarlegri og virkri umræðu um Kína af þessum toga. Þótt sumir greinahöfundar séu þekktir Kínafræðingar fara þeir út fyrir hefðbundna „sínólógíska“ umræðu í skrifum sínum með því að nýta og takast á við hugtakanotkun sem hefur þróast innan siðmenningargreiningar og skyldra fræðasviða til að öðlast skilning á kínversku samfélagi og siðmenningu með hliðsjón af vestrænum samanburði. Þetta kemur m.a. fram í heimspekilegri umræðu um sameiginlegt „öxulveldi“, samfellu og mótsagnir hefðar og nútímans, hugmyndina um „margbrotna nútímavæðingu“, samanburðarrannsóknir á heimsveldum og ekki síst mismunandi „félagslegar ímyndir“ eða „ímyndaðar merkingar“ sem varpa ljósi á hvaða stefnu Kína hefur tekið, er að taka og gæti tekið í framtíðinni."
