Rektorskjör verður 18. og 19. mars

Á fundi kjörstjórnar í gær var ákveðið að kjördagar rektorskosninga við Háskóla Íslands yrðu 18. og 19. mars nk. Kosningin hefst kl. 9:00 fyrri daginn og lýkur kl. 17:00 síðari daginn. Ef enginn frambjóðenda fær meirihluta gildra atkvæða er kosið á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu. Síðari umferðin, ef á þarf að halda, fer fram viku eftir að úrslit fyrri umferðar liggja fyrir.
Kosningin fer alfarið fram með rafrænum hætti í gegnum Uglu. Notað verður sambærilegt kerfi og í kosningum til Stúdentaráðs undanfarin ár. Á Uglu munu birtast upplýsingar um það hvernig kosningakerfið virkar. Þá munu einnig fljótlega birtast upplýsingar um það hvernig kjósendur, sem þess þurfa, geta notið aðstoðar við að kjósa.
Þremur vikum fyrir kjördag, eða 25. febrúar nk., verður rafræn kjörskrá birt í Uglu og getur kjósandi þá kannað hvort hann sé á kjörskrá og vægi atkvæðis síns. Kjörstjórn mun senda sérstaka tilkynningu þegar rafræna kjörskráin hefur verið birt.