Skip to main content
1. febrúar 2017

Rannsókn á trausti meðal eigenda hjá Airbnb

""

Guðmundur Lúther Hallgrímsson, MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Viðskiptafræðideild

Í lokaverkefni sínu sem ber heitið „Traust innan deilihagkerfisins: Rannsókn á trausti meðal eigenda hjá Airbnb“ rannsakaði Guðmundur Lúther Hallgrímsson traust hjá fólki sem hefur boðið húsnæði til leigu á netvanginum Airbnb til leigjenda og eins til Airbnb sem milliliðar í viðskiptunum. Guðmundur svaraði nokkrum spurningum okkar um verkefnið.

Um hvað fjallar rannsóknin?

Rannsóknin snýr að trausti innan deilihagkerfisins og var ákveðið að rannsaka traust hjá eigendum sem eru með eign skráða til útleigu á netvangnum Airbnb til leigjenda og til Airbnb sem milliliðs í viðskiptunum. Ástæðan fyrir valinu er sterk tenging fyrirtækisins við hugtakið deilihagkerfi og jafnframt vegna vinsælda þess hér á landi. 

Hvaðan kom hugmyndin að rannsókninni?

Hugmyndin að rannsókninni kemur upprunalega frá áhuga mínum á deilihagkerfinu en ég er framkvæmdastjóri hjá Bungalo og hef starfað þar síðastliðin fimm ár. Bungalo sérhæfir sig í að sinna milligöngu á útleigu á sumarbústöðum fólks til ferðamanna og er viðskiptalíkan þess keimlíkt því sem Airbnb notast við. Út frá reynslu minni hjá Bungalo hefur mér fundist áhugavert að sjá hvers vegna fólk treystir ókunnugum fyrir persónulegum eigum sínum. 

Hverjar eru niðurstöður rannsóknarinnar?

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að eigendur á Airbnb treysta leigjendum nokkuð vel. Hversu mikið traust þeir bera til leigjenda virðist þó vera háð því hvort reikningur þeirra sé stilltur á að það þurfi að samþykkja hverja bókun eða ekki en þeir sem þurfa að samþykkja virðast treysta leigjendum síður. Þá var kannað hvað útskýrir almennt traust eigenda á leigjendum en niðurstöður sýndu að almennt traust á viðskiptum á netinu vó þyngst.  

Hvað kom helst fram hjá viðmælendum/svarendum?

Skoðað var viðhorf eigenda til að leigja hópum sem voru mismunandi hvað varðar lýðfræðilegar breytur og í ljós kom neikvæðara viðhorf gagnvart því að leigja fólki frá Kína, fólki sem er ekki með mynd af sér á reikningi sínum og fólki yngra en 20 ára. Eigendur virðast treysta Airbnb almennt mjög vel sem millilið í viðskiptum en mjög sterk jákvæð tengsl fundust á milli trausts á Airbnb sem millilið og trausts á greiðslukerfi fyrirtækisins. Að lokum var kannað hvaða þættir á Airbnb gætu ýtt undir almennt traust eigenda á leigjendum. Fylgnipróf sýndu að mikilvægi umsagnakerfis Airbnb mældist hæst með miðlungs neikvæða fylgni við almennt traust á leigjendum. 

Hvað kom mest á óvart í niðurstöðunum?

Það var svo sem ekki margt sem kom mér beint á óvart í niðurstöðunum en ég hef haft góða tilfinningu fyrir þessum þáttum út frá reynslu minni. Það sem mér þykir áhugaverðast úr niðurstöðunum er meðal annars viðhorf eigenda til mismunandi hópa leigjenda. Eigendur eru alls ekki jákvæðir gagnvart því að leigja Kínverjum á meðan að þeir eru jákvæðir til að leigja Indverjum og fólki frá Mið-Austurlöndum. Einnig er áhugavert hversu tregir eigendur eru til að leigja samlöndum sínum, Íslendingum en eigendur mældust hvorki neikvæðir né jákvæðir að leigja þeim sem er áhugavert. Þá þykir mér einnig áhugavert að umsagnakerfi skuli mælast með neikvæða fylgni við traust á leigjendum sem ég túlka út frá öðrum rannsóknum þannig að umsagnakerfi sé gott verkfæri/tól til að sía frá þá sem eru ekki með góðar umsagnir.

""
Guðmundur Lúther Hallgrímsson