Skip to main content
17. nóvember 2025

Rannsakaði aldur og áhrif Ölvis rímna og Bragða-Ölvis sögu

Rannsakaði aldur og áhrif Ölvis rímna og Bragða-Ölvis sögu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík hefur varið doktorsritgerð sína í íslenskum bókmenntum, Ölvis rímur sterka og Bragða-Ölvis saga: Handrit, miðlun og þróun, við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Aðalheiðar Guðmundsdóttur, prófessors í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd Haukur Þorgeirsson, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar og M. J. Driscoll, prófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn.

Andmælendur við vörnina voru Jon Gunnar Jørgensen, prófessor við Háskólann í Osló, og Þórunn Sigurðardóttir, rannsóknarprófessor emeritus við Stofnun Árna Magnússonar. Gauti Kristmannsson, forseti Íslensku- og menningardeildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, fimmtudaginn 13. nóvember.

Um rannsóknina

Rannsókn þessi fjallar um Ölvis rímur sterka og Bragða-Ölvis sögu og miðast við að endurmeta aldur rímnanna sem og prósagerðarinnar, auk þess sem leitast er við að varpa ljósi á þróun íslenskra bókmennta með sérstakri áherslu á Ölvis rímur sterka og Bragða-Ölvis sögu. Í ritgerðinni er leitast við að útskýra íslenska bókmenntahefð og sagnaþróun og skilja hvernig frásagnir „flökkuðu“ á milli bókmenntategunda og voru aðlagaðar í breytilegu formi í takt við samfélagið. Leitast er við að aldursgreina rímurnar og prósagerðina, greina samband þeirra innbyrðis (breytingar á efnistökum, lesbrigði og tilfærslu milli miðlunarforma) en einnig samband þeirra út á við (þ.e. tengsl við annað efni og hvernig efnið um Ölvi passar inn í bókmenntahefð og þróun á Íslandi).

Um doktorinn

Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík lauk B.A. prófi í almennri bókmenntafræði með þjóðfræði sem aukagrein við Háskóla Íslands og M.A. prófi í miðaldafræði frá sama skóla.

Aðalheiður Guðmundsdóttir, Gauti Kristmannsson, Þórunn Sigurðardóttir, Teresa Dröfn Freysdóttir Njarðvík, Jon Gunnar Jørgensen, Ólöf Garðarsdóttir, M. J. Driscoll og Haukur Þorgeirsson.