Skip to main content
19. desember 2025

Rannsaka möguleg lífmerki til snemmgreiningar á parkinsonssjúkdómnum

Rannsaka möguleg lífmerki til snemmgreiningar á parkinsonssjúkdómnum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Vísindamenn innan Háskóla Íslands rannsaka nú hvort tengsl séu milli breytinga í heila vegna parkinsonssjúkdómsins og einkenna í sjónhimnuæðum augans. Verði hægt að staðfesta tengslin gætu þau mögulega nýst til snemmbúinnar greiningar á sjúkdómnum og aukið lífsgæði þeirra sem greinast með hann.

Áætlað er að um tíu milljónir einstaklinga þjáist af parkinsonssjúkdómnum á heimsvísu og þar af um 1.200 á Íslandi. Sjúkdómurinn er því næst algengasti taugahrörnunarsjúkdómurinn á eftir Alzheimer en algengi sjúkdómsins eykst með hækkandi aldri. Hlutfall sjúkdómsins hjá einstaklingum 60 ára og eldri er um 1% en um 4% þeirra sem greinast eru yngri en 50 ára. Gert er ráð fyrir að tilfellum muni fjölga umtalsvert til ársins 2050 og að þá verði yfir 25 milljónir manna með parkinsonssjúkdóminn í heiminum.

Þórunn Scheving Elíasdóttir, dósent við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands , fer fyrir rannsóknarhópnum en rannsóknin er samstarfsverkefni skólans, Landspítala og Reykjalundar.

Engin áreiðanleg aðferð til að greina sjúkdóminn snemma

„Parkinsonssjúkdómurinn einkennist af stigvaxandi tapi á dópamínmyndandi frumum í svartfyllu heilans (e. substantia nigra) og óeðlilegum útfellingum og uppsöfnun á svokölluðum alpha-synuclein próteinum í heila. Þessi prótein hafa einnig fundist á öðrum svæðum í miðtaugakerfinu eins og innri sjónhimnu augans,“ útskýrir Þórunn.

Greining parkinsonsjúkdómsins byggist á klínískum hreyfieinkennum þegar um 60 til 80% dópamínmyndandi frumna í heila hafa hætt starfsemi en fólk getur fundið fyrir einkennum sem tengjast sjúkdómnum að minnsta kosti fimm árum fyrr. Þórunn bendir á að í dag sé engin áreiðanleg aðferð eða þekkt lífmerki til að greina sjúkdóminn á fyrri stigum áður en klínísku hreyfieinkennin koma fram en snemmbúin sjúkdómsgreining gæti reynst afar mikilvæg til að efla lífsgæði þeirra sem greinast með sjúkdóminn.

„Markmið þessarar rannsóknar er að meta hvort breytingar verði á súrefnismettun í sjónhimnuæðum hjá fólki með parkinsonssjúkdóminn sem gæti nýst sem lífmerki til snemmgreiningar á sjúkdómnum,“ útskýrir Þórunn.

Taugahrörnun í heila hefur áhrif á sjónhimnu

Á síðari árum hefur sjónum verið beint að því hvort meinafræðilegar breytingar í heila vegna taugahrörnunarsjúkdóma komi fram í sjónhimnuæðum augans. „Innri sjónhimnan er taugavefur og rannsóknir hafa sýnt fram á breytingar á súrefnismettun í sjónhimnuæðum fólks með heila- og mænusigg, eða MS-sjúkdóminn, við væga til meðalsvæsna heilabilun vegna Alzheimers-sjúkdómsins og hjá fólki með væga vitræna skerðingu sem þróast í sumum tilfellum yfir í heilabilun eins og Alzheimers-sjúkdóminn,“ útskýrir Þórunn.

Tengslin milli sjónhimnunnar og heilans byggjast á því að á fósturskeiði þróast sjónhimnan frá milliheilanum en æðauppbyggingu sjónhimnunnar svipar að miklu leyti til smáæðakerfisins í heilanum, blóðflæðisins og stjórnunar á blóðflæðinu í heilanum.

„Niðurstöður rannsókna á sjúklingum með parkinsonssjúkdóminn sýna að taugahrörnun í heilanum endurspeglast í breytingum á starfsemi sjónhimnunnar, meðal annars vegna dópamínsskorts,“ segir Þórunn og heldur áfram: „Sneiðmyndarannsóknir og raflífeðlisfræðilegar mælingar hafa bæði sýnt fram á rýrnun í taugavef innri sjónhimnunnar og minnkaða svörun taugafrumna á sjónhimnuriti (e. pattern electro-radiography) auk breytinga á sveifluvídd sjónhrifssvarana frá sjónberki heilans (e. visual evoked potential).“

Niðurstöðurnar munu fyrst og fremst veita upplýsingar um gagnsemi sjónhimnu-súrefnismælinga við greiningu á parkinsonssjúkdómnum í sjónhimnuvef en jákvæðar niðurstöður gætu reynst mikilvægar fyrir snemmbúna sjúkdómsgreiningu og þar með eflingu lífsgæða og eftirfylgni með þróun sjúkdómsins hjá þeim sem greinast með parkinsonsveiki,“ segir Þórunn.

Samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Reykjalundar

Rannsóknin er þríþætt og felur í sér mælingu á súrefnismettun í sjónhimnuæðum, sneiðmyndatöku af sjónhimnuvef og raflífeðlisfræðilegar mælingar á svörun taugafrumna í sjónhimnu augans og í sjónberki heilans við endurtekið ljósáreiti. „Niðurstöður súrefnismettunarinnar og æðavíddarinnar eru síðan bornar saman við þykktina á taugalagi sjónhimnunnar og svörun taugafrumna í sjónhimnu augans og í sjónberki heilans við endurtekið ljósáreiti,“ útskýrir Þórunn.

Auk Þórunnar koma að rannsókninni Ólöf Birna Ólafsdóttir, dósent við læknadeild Háskóla Íslands. og Marianne E. Klinke, prófessor við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Rannsóknin var jafnframt hluti af meistaraverkefni Freyju Húnfjörð Jósepsdóttur, en hún fór fremst í flokki í gagnasöfnun og mælingum, bæði á þátttakendum með parkinsonssjúkdóminn og heilbrigðum samanburðarhóp. Freyja útskrifaðist með meistaragráðu í lífeindafræði frá HÍ vorið 2024.

Sem fyrr segir er rannsóknin samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Landspítala og Reykjalundar. Meðrannsakendur eru Sóley Guðrún Þráinsdóttir, yfirlæknir tauga- og hæfingarteymis á Reykjalundi, Anna Bryndís Einarsdóttir, yfirlæknir á taugalækningadeild Landspítala, Sveinn Hákon Harðarson, dósent við Læknadeild HÍ og Einar Stefánsson, prófessor emeritus við læknadeild HÍ og sérfræðilæknir í augnlækningum.

„Ég hef starfað með Ólöfu og Sveini að mælingum á súrefnismettun í sjónhimnuæðum í yfir áratug, lengst af undir forystu Einars Stefánssonar, yfirlæknis og prófessors, en við vorum öll doktorsnemar hjá honum. Sjónhimnusúrefnismælirinn er afrakstur samstarfs þverfaglegs teymis sérfræðinga í samvinnu við HÍ og byggist á störfum fjölmargra vísindamanna víðs vegar um heiminn. Anna Bryndís var einnig hluti af þessum hópi en núverandi samstarf við hana og Sóleyju Guðrúnu felst í sérfræðiþekkingu þeirra í taugalækningum. Marianne er sérfræðingur í taugahjúkrun og forstöðumaður fræðasviðs taugahjúkrunar. Ég var, ásamt Ólöfu, Marianne og Sveini leiðbeinandi Freyju og í meistaranefnd hennar,“ segir Þórunn um rannsóknarhópinn.

Niðurstöður gætu haft áhrif á greiningu sjúkdómsins

Rannsóknin er á lokametrunum og Þórunn er spennt að sjá endanlegar niðurstöður. „Niðurstöðurnar munu fyrst og fremst veita upplýsingar um gagnsemi sjónhimnu-súrefnismælinga við greiningu á parkinsonssjúkdómnum í sjónhimnuvef en jákvæðar niðurstöður gætu reynst mikilvægar fyrir snemmbúna sjúkdómsgreiningu og þar með eflingu lífsgæða og eftirfylgni með þróun sjúkdómsins hjá þeim sem greinast með parkinsonsveiki.“

Þórunn Scheving Elíasdóttir