Skip to main content
12. ágúst 2020

Rafræn kennsla með möguleika á staðnámi 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag (12. ágúst 2020):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Nú fer kennsla senn að hefjast ásamt öðru starfi Háskólans á öllum fræðasviðum. Það er vandasamt verk að skipuleggja skólastarf á slíkum óvissutímum þar sem forsendur geta breyst með skömmum fyrirvara. 

Markmið okkar er að skipuleggja skólastarfið þannig að það haldist óslitið þrátt fyrir skyndilegar breytingar en einnig að það sé eins eðlilegt og kostur er. Þetta þýðir að kennsla við Háskóla Íslands haustið 2020 verður skipulögð sem rafræn kennsla  – og geti með stuttum fyrirvara orðið að fullu rafræn breytist forsendur – en á sama tíma verður leitað leiða við að nýta stofur skólans til staðkennslu eftir því sem kostur er miðað við aðstæður.  

Háskólinn er opinn stúdentum og starfsfólki en lýtur gildandi sóttvarnarreglum. Yfirvöld hafa rýmkað heimildir skóla til að nýta stofur til staðkennslu, að þar sé miðað við 1m milli einstaklinga en ekki 2m eins og almennt gildir. Áfram gildir að ef óvíst er hvort hægt sé að virða fjarlægðartakmarkanir ber að nota andlitsgrímur og miðað er við hámark 100 fullorðinna í sama rými. 

Við nýtingu á stofurými Háskólans til staðkennslu verður eftirfarandi haft að leiðarljósi:

  • Þarfir nýnema verða settar í forgang við skipulagningu staðkennslu / úthlutun stofurýmis.
  • Leitast verður við að allir nemendur við Háskóla Íslands fái staðkennslu að einhverju marki á haustmisseri (t.d. umræðutíma, verklega og klíníska kennslu) eftir því sem aðstæður leyfa og þörf er á.
  • Fyrirlestrar sem fara fram í stofum skólans verði eftir því sem kostur er ýmist streymt eða teknir upp og birtir í Canvas. Ennfremur eru kennarar hvattir til að birta styttri kennslumyndbönd þar sem það á við.
  • Skipulag staðkennslu er á forræði deilda/námsbrauta og fræðasviða. 
  • Deildir og kennarar munu í þessari viku og næstu útfæra tilhögun kennslu í samræmi við þessar takmarkanir og að hvaða leyti verður hægt að nýta stofur til staðkennslu. Nemendum er því bent á að fylgjast með tilkynningum frá deild og kennurum námskeiða.    

Háskóli Íslands mun að sjálfsögðu upplýsa um allar breytingar sem kunna að verða á starfi skólans komi til breytinga á ofangreindum tilmælum sóttvarnarlæknis. Að öðu leyti vísa ég í orðsendingu skólans frá því fyrir helgi

Háskóli Íslands setur velferð samfélagins, innan og utan veggja skólans, í algeran forgang. Markmið okkar er einnig að tryggja gæði námsins eins og nokkur er kostur. Við erum í erfiðri stöðu en með sameiginlegu átaki náum við í gegnum þennan brimskafl eins og alla þá fyrri. 

Jón Atli Benediktsson,
rektor“

Nemendur á Háskólatorgi