Rætt um rannsóknir við krakka yfir vísindakakói í vetur
Forvitnum krökkum gefst færi á að spjalla við vísindafólk úr fjölbreyttum greinum um störf þeirra á Vísindakakói, nýrri viðburðaröð sem Rannís og Háskóli Íslands standa saman að ásamt bókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri í vetur. Fyrsti viðburðurinn verður laugardaginn 21. september.
Fyrirmynd verkefnisins eru hin þekktari Vísindakaffi þar sem almenningi hefur gefist kostur á að ræða á óformlegum nótum við vísindafólk í afslöppuðu umhverfi. Vísindakakó er þó ólíkt Vísindakaffinu á þann hátt að það er sérstaklega miðað að börnum og ungu fólki.
Alls verður boðið upp á tíu viðburði í vetur og fara þeir allir fram á laugardögum. Á hverjum viðburði spjallar einn vísindamaður um viðfangsefni sín og gefst krökkum færi á að spyrja um hvað eina sem snertir starf vísindamannsins og rannsóknir. Með þessu framtaki kynnast krakkar á öllum aldri ólíkum vísindalegum viðfangsefnum sem hægt er að taka sér fyrir hendur í framtíðinni.
Fyrsta Vísindakakóið fer fram í Bókasafni Kópavogs laugardaginn 21. september kl. 13 en þá mun dr. Þórhildur Halldórsdóttir, dósent við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík, segja gestum frá sínum rannsóknum og vísindastörfum og svara spurningum. Gert er ráð fyrir að viðburðurinn sé um ein klukkustund og að sjálfsögðu verður boðið upp á kakó og kleinur á meðan birgðir endast.
Fulltrúar úr ólíkum greinum innan Háskóla Íslands eru meðal þeirra sem taka þátt í Vísindakakói í vetur og hægt er að kynna sér viðburðadagskrána á vef Rannís.
Viðburðaröðin er hugarfóstur þeirra Davíðs Fjölnis Ármannssonar, kynningarstjóra hjá Rannís, og Martins Jónasar B. Swift, verkefnastjóra STEM-greina við Nýmennt á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Þeir fengu styrk til verkefnisins úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins við Háskóla Íslands í fyrra.