Skip to main content
23. maí 2019

Rætt um aukið samstarf við Manitobaháskóla á sviði íslenskukennslu

""

Aukið samstarf Háskóla Íslands og Manitóbaháskóla í Kanada, þar á meðal á sviði íslenskukennslu við síðarnefnda skólann, var til umræðu þegar Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, heimsótti Winnipeg í liðinni viku. Rektor flutti jafnframt erindi á 100 ára afmælisþingi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi.

Rektor var í fylgdarliði íslensku forsetahjónanna í heimsókninni í Winnipeg en þar býr töluverður fjöldi Vestur-Íslendinga. Í ferð sinni heimsótti hópurinn Manitóbaháskóla og kynnti sér m.a. The Icelandic Collection, íslenska bókasafnið í skólanum sem er stórt að sniðum. Við Háskólann í Manitoba er enn fremur eina íslenskudeildin sem rekin er við háskóla utan Íslands og þá hefur samningur milli skólanna tveggja um nemendaskipti og fleira verið í gildi í tvo áratugi. Aukið samstarf skólanna bar á góma á fundi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands,  og Jóns Atla með David T. Barnard, rektor Manitobaháskóla, en rætt var um að Háskóli Íslands komi að auknum stuðningi við íslenskukennslu í Manitobaháskóla. Þá var einnig rætt um samstarfsráðsráðstefnu skólanna tveggja en hún verður haldin í fyrsta sinn síðan 2012 í Veröld – húsi Vigdísar 29.-30. ágúst nk. 

Rektor flutti einnig erindi um tengsl Háskóla Íslands og Vestur-Íslendinga á 100 ára afmælisþingi Þjóðræknisfélags Íslendinga í Norður-Ameríku (Icelandic National League of North America – INLNA). „Í alþjóðlegu samhengi hefur samstarf okkar við íslenskudeildina Manitobaháskóla algjöra sérstöðu. Það er stöðugur minnisvarði um ómetanlega og langvarandi samvinnu Háskóla Íslands og samfélags Vestur-Íslendinga í Norður-Ameríku,“ sagði rektor meðal annars í ræðu sinni.

Rektor Háskóla Íslands átti einnig fund með Janis Johnson, fyrrverandi öldungadeildarþingmanni í Kanada sem er af íslenskum ættum, en þar var samstarf Háskóla Íslands og háskóla í Kanada í forgrunni. Þá hittu rektor og Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, velunnara í tengslum við fjáröflun fyrir Stephan G. Stephanson styrktarsjóðinn sem komið var á fót við Háskóla Íslands vorið 2017. Markmið sjóðsins, sem kenndur er við landnemann og Klettafjallaskáldið Stephan G. Stephanson, er að treysta enn frekar tengslin við Vestur-Íslendinga í Kanada og Bandaríkjunum og stuðla að rannsóknasamstarfi fræðimanna á Íslandi og í Vesturheimi á sviði innflytjendabókmennta. Þess má geta að framlög í sjóðinn í Kanada veita skattaafslátt þar í landi.

David T. Barnard, Guðni Th. Jóhannesson, og Jón Atli Benediktsson
Jón Atli Benediktsson
""
""
""