Rætt um aðkomu kvenna að friðar- og öryggismálum í Hátíðasal

Leiðtogar frá átakasvæðum, alþjóðastofnunum, frjálsum félagsamtökum og fræðasamfélagi taka þátt í alþjóðlegu málþingi um konur, frið og öryggi sem haldið verður mánudaginn 10. nóvember í Hátíðasal HÍ. Tilefnið er aldarfjórðungsafmæli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur, frið og öryggi. Málþingið, sem stendur frá kl. 17-19, verður einnig í streymi en það er haldið samhliða Heimsþingi kvenleiðtoga sem fram fer í Hörpu dagana 10.–12. nóvember.
Að málþinginu standa utanríkisráðuneytið, Íslandsdeild Norræns tengslanets kvenna í sáttamiðlun (Nordic Women Mediators Network), Jafnréttisskóli GRÓ við Hugvísindasvið HÍ og Alþjóðamálastofnun skólans, UN Women Ísland og Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.
Ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1325 um konur frið og öryggi markaði tímamót en með henni var viðurkennt mikilvægi þátttöku kvenna í friðarferlum, vernd þeirra í átökum og samþættingar kynjasjónarmiða í öryggismálum.
Málþinginu í Hátíðasal er ætlað að skapa vettvang fyrir alþjóðlegt samtal milli stjórnvalda, fræðasamfélagsins, alþjóðastofnana og grasrótar og staðfestir áframhaldandi forystu Íslands á sviði jafnréttis, friðar og mannréttinda og sem málsvari ályktunar 1325 undanfarna tvo áratugi. Rúmlega helmingur aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna hefur mótað landsáætlun til að framfylgja ályktun 1325 um konur, frið og öryggi. Ísland hefur mótað sína fjórðu landsáætlun og er málþingið liður í framfylgd hennar.
Á málþinginu munu leiðtogar frá átakasvæðum, alþjóðastofnunum, frjálsum félagsamtökum og fræðasamfélagi taka þátt í samræðum um ólíka reynslu af aðkomu kvenna að öryggismálum. Þær munu jafnframt ræða stöðu kvenna innan alþjóðakerfisins út frá ályktuninni og þær skuldbindingar sem stuðla að aukinni þátttöku kvenna í fyrirbyggjandi aðgerðum gegn vopnuðum átökum, friðarferlum og friðaruppbyggingu að loknum átökum.
Málþingið er opið öllum en nauðsynlegt er að skrá þátttöku með því að smella á meðfylgjandi hlekk.
Góðfúslega mætið vel tímanlega því skrá þarf gesti inn í salinn þar sem málþingið fer fram. Viðburður hefst á slaginu kl. 17:00.
