Ræddu um kóreska mála- og menningarstofnun við HÍ
Dagana 23.-24. apríl sótti þriggja manna sendinefnd frá höfuðstöðvum King Sejong Institute í Seoul í Suður-Kóreu Háskóla Íslands heim til að ræða möguleikann á því að Háskólinn myndi hýsa slíka stofnun. Sendinefndin átti fundi með rektor og fulltrúum Hugvísindasviðs og Mála- og menningardeildar skólans.
Við undirbúning námsleiðar kóreskra fræða við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði, sem komið var á fót haustið 2022, var um leið lögð inn umsókn um King Sejong stofnun og var heimsóknin hluti af því ferli.
Um er að ræða kóreska mála- og menningarstofnun sem stuðlar að kennslu kóreskrar tungu og fræðslu um kóreska menningu og sögu á öllum skólastigum sem og gagnvart almenningi. Gert er ráð fyrir að stofnunin taki til starfa á næsta haust, í fyrstu til reynslu fyrir báða samstarfsaðila, og verði þá í nánum tengslum við námsleið kóreskra fræða undir handleiðslu Somyeong Im, kennara í kóresku við Mála- og menningardeild.
Nám í kóreskum fræðum er til 60 eininga og getur nýst sem aukagrein með öðru námi eða sem stök diplómagráða.