Ráðstefnan Viðskipti og vísindi haldin í fyrsta sinn
Dagana 14. til 17. mars stendur Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands fyrir ráðstefnunni Viðskipti og vísindi í fyrsta sinn. Þar verður boðið upp á fjölbreytta viðburði og viðfangsefnin eru meðal annars stjórnarhættir, skattsvik, sjálfbærni, nýsköpun, markaðsmál, bankar, vinnumarkaðurinn og jöfn tækifæri kynjanna.
Þátttakendur á ráðstefnunni eru bæði rannsakendur úr háskólasamfélaginu, sem miðla fræðilegri þekkingu og rannsóknaniðurstöðum, og stjórnendur og starfsfólk úr viðskiptalífinu, sem miðlar einnig reynslu sinni og þekkingu, ásamt nýútskrifuðum meistaranemum á sviði viðskipta. Ráðstefnan fer fram bæði á háskólasvæðinu og annars staðar í borginni.
Meðal dagskrárliða:
Þriðjudaginn 14. mars kl. 8.30 – 10.00 er viðburður í Hátíðasal HÍ sem nefnist Gagnsæi, stjórnarhættir og reikningskil sjálfbærni
Miðvikudaginn 15. mars kl. 8.30 – 10.00 er viðburður í fundarsal Arion banka í Borgartúni sem nefnist Ertu að gefast upp á sjálfbærninni?
Fimmtudag 16. mars kl. 11:40 –16 og föstudag 17. mars kl. 9–16 eru kynningar á nýjum rannsóknum í stofum HT-103 og HT-104 á Háskólatorgi.
Frekari upplýsingar um dagskrá ráðstefnunnar eru á vefsíðu hennar.
Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis og öll áhugasöm eru velkomin.