Piltur og stúlka í upprunalegri útgáfu
Í tilefni af því að liðin eru 200 ár frá fæðingu Jóns Thoroddsen og 150 ár frá andláti hans hefur fyrsta útgáfa Pilts og stúlku verið endurprentuð. Már Jónsson, prófessor í sagnfræði, hafði umsjón með útgáfunni og skrifaði ítarlegan inngang. Í bókinni er einnig að finna smásögu Jóns frá 1848 og upphaf á skáldsögu sem hann byrjaði á sex árum síðarn en hætti við.
Jón Thoroddsen stóð á þrítugu þegar hann hóf að skrifa skáldsöguna Pilt og stúlku sem markar upphaf nútíma skáldsagnagerðar Íslendinga. Hann var innblásinn af bókmenntum samtímans í Danmörku og Vestur-Evrópu án þess þó að herma eftir neinum. Úr varð gamansöm örlagasaga Sigríðar Bjarnadóttur og Indriða Jónssonar sem eftir misskilning á misskilning ofan fá loks að eigast. Söguþráðurinn er látlaus en samtöl afburða fyndin og ýmsar persónur óborganlegar, ekki síst Gróa á Leiti og Bárður á Búrfelli. Skáldsagan kom fyrst út í Kaupmannahöfn vorið 1850 og næst í Reykjavík sumarið 1867, endurskoðuð og aukin af höfundi. Við þá útgáfu hafa allar síðari prentanir stuðst og hafa því fáir lesið söguna í þeirri upprunalegu mynd sem nú hefur verið gefin út. Lesendur njóta því texta sem er tær afurð ungs rithöfundar sem vildi gera eitthvað nýtt og tókst það.
Útgefandi er forlagið Sæmundur.