Skip to main content
19. nóvember 2024

Öryggis-, alþjóða- og skipulagsmál á háskólaþingi 20. nóvember

Öryggis-, alþjóða- og skipulagsmál á háskólaþingi 20. nóvember - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjallað verður um öryggismál í Háskóla Íslands, alþjóðlega stöðu skólans og skipulags- og samgöngumál á háskólaþingi sem fram fer í Hátíðasal skólans miðvikudaginn 20. nóvember kl. 13.-15.45. Þingið verður sent út í beinu streymi.

Háskólaþing kemur alla jafna saman einu sinni á misseri en um er að ræða samráðsvettvang háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Þingið sækja helstu stjórnendur skólans, kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði, en alls eiga yfir hundrað manns seturétt á þinginu. 

Fjögur mál eru á dagskrá háskólaþings að þessu sinni. Rektor hefur þingið á að reifa það sem efst er á baugi innan skólans en í framhaldi af því verður fjallað um öryggismál í bæði raun- og netheimum. Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, dósent og formaður öryggisnefndar Háskóla Íslands, fjallar um öryggismál á háskólasvæðinu og Guðmundur H. Kjærnested, sviðsstjóri upplýsingatæknisviðs, ræðir netöryggi og -ógnir. 

Að loknu kaffihléi tekur við umræða um vísindastarf Háskóla Íslands í alþjóðlegu samhengi. Halldór Jónsson, sviðsstjóri vísinda- og nýsköpunarsviðs,  og Friðrika Harðardóttir, sviðsstjóri alþjóðasviðs, fjalla um málið og kjölfarið svara þau spurningum gesta þingsins.

Að endingu verður fjallað um skipulags- og samgöngumál háskólasvæðisins á víðum grunni. Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor og formaður skipulagsnefndar háskólasvæðisins, kynnir nýja þróunaráætlun fyrir háskólasvæðið sem verið hefur í vinnslu á síðustu misserum í samstarfi Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar, Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur hjá Eflu, greinir frá niðurstöðum úttektar á samgöngum á háskólasvæðinu og áætlun um þróun þeirra til framtíðar. Loks fer Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, yfir stöðu mála og næstu skref varðandi gjaldtöku fyrir bílastæði á háskólasvæðinu. 

Frá háskólaþingi