Orðasambandafræði, þýðingar og orðaforði meðal efnis í Milli mála

Tvö ný hefti Milli Mála eru komin út, annars vegar sérhefti helgað orðasambandafræðum og hins vegar almennt hefti með fjórum ritrýndum greinum um þýðingar, viðhorf til kennara sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, orðaforða úr frumbyggjamálum og tungumálið ladino.
Rannsóknastofa í orðasambandafræði (RÍO) var sett á laggirnar við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands árið 2022 og í sérhefti Milli mála 17:1 (2025) er sjónum beint að notkun orðasambanda og gerð er grein fyrir helstu rannsóknum undanfarinna ára á sviði orðasambandafræða. Greinarnar spanna yfirlit um uppruna og sögu fræðanna, orðasambönd á ýmsum tungumálum Evrópu og samanburð við íslensku. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að tungumálakennarar og -nemar gefi þessum þætti málanáms sérstakan gaum.
Höfundar greina eru Auður Hauksdóttir, Azuecena Penas Ibánez, Dimitrj Dobrovol'skij, Elisabeth Piirainen (þýð. Sigrún Á. Eiríksdóttir), Erla Erlendsdóttir, Erla Hallsteinsdóttir, Guðrún Kvaran, Nuria Frías Jiménez, Oddný G. Sverrisdóttir og Rósa Elín Davíðsdóttir. Gestaritstjórar voru Erla Erlendsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir
Í almenna hefti Milli mála 17:2 (2025) fjallar Unnur Bjarnadóttir fyrst um þrjá rithætti japönsku og skyldleika japönsku við önnur tungumál. Farið er yfir sögu þýðinga í Japan, viðhorf Japana til þýðinga, og hvernig þýtt var úr kínversku samkvæmt kanbun kkundoku aðferðinni, sem ekki telst til þýðinga í vestrænum nútímaskilningi. Stefanie Bade og Piergiorgio Conasagra varpa ljósi á viðhorf nemenda í Íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands til kennara með íslensku að móðurmáli og þeirra sem hafa annað móðurmál en íslensku. Í grein sinni rýnir Erla Erlendsdóttir í verk danska prentarans og hringjarns Hans Hansen Skonning sem safnaði orðum úr tungumálum innfæddra í Nýja heiminum og gaf út í Árósum árið 1641. Verkið var þýtt á íslensku árið 1676. Juan David Hernández Rodriguez fjallar síðan um afstöðu ladinomælandi einstaklinga til ladino annars vegar og hebresku hins vegar í tvítyngdu umhverfi í Ísrael.
Í heftinu er auk þess að finna þrjár bókmenntaþýðingar. Ásdís Rósa Magnúsdóttir kynnir stuttlega smásöguna „Sarrasine“ eftir franska rithöfundinn Honoré de Balzac og birtir þýðingu sína á verkinu. Sagan fjallar um myndhöggvarann Sarrasine sem í Rómarferð sinni heillast af hinni dularfullu Zambinella. Hólmfríður Garðarsdóttir segir frá argentínska rithöfundinum, blaðakonunni og menningarfrömuðinum Cristina Civale og ferli hennar. Hún hefur vakið athygli fyrir hispurslausar frásagnir af lífi kvenna á barmi taugaáfalls. Hér er svo birt þýðing Hólmfríðar á tveimur smásögum Civale, „Gin“ og „Gin & tonic“. Þar næst fjallar Ana Belén Fernández Oragnista um Ástu Sigurðardóttur, lífshlaup hennar og höfundaferil og birtir þýðingu sína á smásögunni „Kóngaliljur“ eða „Liros reales“. Óskar Vistdal skrifar að lokum um finnska þýðingu Harrys Lönnroth á hinum fornsænsku Evfemíuvísum.
Ritstjórar voru Geir Þ. Þórarinsson og Þórhildur Oddsdóttir.
Milli mála er gefið út í opnum aðgangi og útgáfan er styrkt af Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
