Skip to main content
28. ágúst 2025

Ólympíuleikar og ótal margt fleira á Nýnemadögum

Ólympíuleikar og ótal margt fleira á Nýnemadögum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ólympíuleikar, HÍ/HR-dagurinn, fótboltamót Stúdentaráðs og kynningar á þjónustu, stuðningi og tækifærum í skiptinámi á vegum Háskóla Íslands er meðal þess sem í boði verður á árlegum Nýnemadögum sem fara fram 1.-5. september. Nýnemar og aðrir stúdentar eru hvattir til að taka þátt í dagskránni.

Tilgangur Nýnemadaga er ekki síst að kynna fyrir nýjum háskólanemum litríkt og fjölbreytt samfélag í Háskóla Íslands og um leið að stuðla að myndun nýrra vináttubanda. Nýnemadagar hafa verið haldnir langt árabil og nú ber svo við að árleg hátíð stúdenta, Októberfest, fer einnig fram í vikunni.

Stúdentaráð þjófstartar Nýnemadögum föstudaginn 29. ágúst með árlegu nýnemamóti sínu í fótbolta. Mótið verður haldið á grasfletinum framan við Aðalbyggingu og hefst kl. 13. Þar geta allir nemar tekið þátt með sínu nemendafélagi og er hvert lið skipað 7 keppendum, þar af þarf að vera einn nýnemi. Keppt verður 2x7 mín og eru glæsilegir vinningar í boði fyrir sigurvegarana og liðið í skemmtilegustu búningunum.

Hinir eiginlegu Nýnemadagar hefjast svo á kynningu á helstu þjónustueiningum Háskólans mánudaginn 1. september kl. 11.30-13.00 á Háskólatorgi. Þar geta nemendur spjallað við starfsfólk frá Nemendaráðgjöf, Alþjóðasviði, Nemendaskrá, Tungumálamiðstöð, Ritveri, Landsbókasafni og Smáuglunni – appi Háskóla Íslands. Á staðnum eru líka fulltrúar frá Stúdentaráði, sjálfbærni- og umhverfismálum í HÍ, Háskólakórnum, Háskóladansinum, Félagi hinsegin stúdenta og Félagsstofnun stúdenta sem rekur Bóksölu stúdenta, Leikskóla stúdenta, Stúdentagarða, Stúdentakjallarann og fleira.

Þá mun Háskólakórinn taka lagið í hádeginu og enn fremur býður Stúdentaráð nýnemum í gönguferð um háskólasvæðið kl. 12.30 þennan dag. Lagt er af stað frá upplýsingaborði fyrir nýnema á Háskólatorgi. Upplýsingaborðið verður starfrækt alla vikuna frá kl. 10-14 og þar geta nýnemar og aðrir fengið svör við hinum ýmsu spurningum sem varða námið, skólann, byggingar og stofuskipan, félagslífið, þjónustu og margt fleira.

Í vikunni rekur svo hver viðburðurinn annan þar sem tónlist og dans og kappleikir og stefnumót koma meðal annars við sögu.

Þriðjudaginn 2. september verður svokölluðum grænum nýnemadegi fagnað þegar stúdentar og fulltrúar HÍ taka við Grænfánanum frá Landsvernd á Háskólatorgi í hádeginu. 

Þá mun Háskóladansinn stíga nokkur spor og kynna starfsemi sína á Háskólatorgi miðvikudaginn 3. september kl. 12. Sama dag stendur Stúdentaráð fyrir Lostalauginnni, sinni eigin útgáfu af stefnumótaþættinum þekkta Djúpu lauginni. Viðburðurinn hefst í Stúdentakjallaranum kl. 20.

Fimmtudaginn 4. september mætast fulltrúar HÍ og HR í æsilegum og misíþróttamannslegum kappleikjum á svokölluðum HÍ/HR-degi og þar á HÍ titil að verja frá síðasta ári. Atið fer fram á malarstæðinu fyrir framan Októberfest-svæðið í Vatnsmýri og hefst kl. 15. Fyrr um daginn, eða kl. 12, munu Bóksalan og SHÍ standa fyrir tónleikum með Gugusar í Bóksölunni og hita þannig upp fyrir Októberfest. 

Nýnemadagar ná hápunkti sínum föstudaginn 5. september þegar Ólympíuleikar Nýnemadaga fara fram. Þar etja kappi fulltrúar alla nemendafélaga við HÍ og sem fyrr er það ekki síst stuðningsfólkið sem spilar stærstu rulluna. Leikarnir fara fram á Októberfest-svæðinu og hefjast kl. 15. Þennan dag verður einnig boðið upp á tónlist í hádeginu á Háskólatorgi. 

Í vikunni verður Nemendaráðgjöf einnig með kynnningu á víðtækri þjónustu sinni við nemendur, þar á meðal náms- og starfsráðgjöf, sértækum úrræðum í námi og prófum, sálfræðiþjónustu, námstækni, Tengslatorgi og fleiru.

Á Nýnemadögum verður einnig boðið upp á hinn árlega og sívinsæla í spurningaleik fyrir nýnema á Uglu þar sem glæsilegir vinningar verða í boði.

Nýnemar eru einnig hvattir til að fylgjast með Instagram-síðu Háskólans umrædda viku þar sem kynnt er ýmis þjónusta, stuðningur og félagslíf sem stendur nemendum til boða.

Nánari upplýsingar um Nýnemadaga má finna á vefsíðu daganna.

 

Nemendur á Háskólatorgi