Skip to main content
26. júní 2025

Ólífutréð haldið við Háskóla Íslands

Ólífutréð haldið við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Námskeið undir heitinu The Olive Tree Programme, sem á íslensku mætti útleggjast „Ólífutréð“, var haldið við Háskóla Íslands 30. maí til 3.júní síðastliðinn. Námskeiðið hefur það að markmiði að þjálfa aðferðir sem gera einstaklingum kleift að auka seiglu og tilfinningalega þrautseigju. Þrír kennarar námskeiðsins komu frá The Irish Focusing Network. Það eru þau Margaret Quinn, Tom Larkin og Mary Jennings, en öll hafa þau áratugareynslu af þjálfun og beitingu hugrænna-líkamlegra aðferða eins og „fókusing“ (e. focusing), sem hafa útgangspunkt skynfinningu fyrir vanda eða verkefni. Aðferðafræði focusing var þróuð á mótum sálfræði og heimspeki af Eugene Gendlin.

Verkefnastjóri  Ólíftrés-námskeiðskeiðsins er Ghada Radwan sem er einnig í kennarateyminu. Ghada Radwan er meistaranemi við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en The Olive Tree Programme er hluti af meistaraverkefni hennar. Verkefnið er jafnframt hluti af þverfaglega rannsóknarverkefninu Freedom to Make Sense (ísl. Frelsi til merkingarsköpunar), www.makesense.hi.is sem rannsakendur við bæði Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands standa saman að, ásamt þverfaglegum hópi rannsakenda frá yfir 20 háskólum og rannsóknastofnunum víða um heim. Þátttakendur á námskeiðinu síðastliðna viku starfa með arabískumælandi innflytjendum á vegum ýmissa stofnanna hér á landi, m.a. hjá Rauða Krossi Íslands, Reykjavíkurborg, Kópavogsbæ og Menningarsetri múslima á Íslandi. Við lok námskeiðsins hlutu þátttakendur réttindi til þess að kenna aðferðirnar á sínum eigin starfsvettvangi. Verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála og svissnesku stofnuninni Challenge to Change með stuðningi frá Rauða krossi Íslands og rannsóknarverkefninu "Freedom to Make Sense".

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki skipulagði námskeiðið fyrir hönd Make Sense með aðstoð Elsu Haraldsdóttur doktorsnema og Sólrúnar Unu Þorláksdóttur verkefnisstjóra.