Skip to main content
14. janúar 2022

Óbreyttar COVID-reglur um skólahald

Óbreyttar COVID-reglur um skólahald - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (14. janúar 2022):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Þrátt fyrir flóknar aðstæður vegna COVID-19 hefur starfið okkar hafist af krafti á nýju ári. Í nýrri yfirlýsingu yfirvalda vegna sóttvarna kemur fram að tíu manna samkomutakmörkun muni taka gildi innanlands á miðnætti og munu aðgerðirnar gilda til 2. febrúar. Reglugerð um skóla mun hins vegar standa óbreytt og því eru engar frekari kvaðir settar á starf okkar innan HÍ.

Fjöldi nýnema steig sín fyrstu spor í HÍ þessa fyrstu daga janúarmánaðar, að hluta til á staðnum og að hluta með rafrænum hætti. Ég býð ykkur sérstaklega velkomna í Háskóla Íslands, kæru nýnemar, og óska ykkur velgengni. Þið eruð nú að feta veg sem um 55 þúsund Íslendingar hafa gert á undan ykkur og nú takið þið þátt í að móta velferð okkar og framtíð.

Það getur verið flókið að hefja nám í stórum og metnaðarfullum háskóla og því höfum við sett á einn stað á vefsvæðinu okkar allskyns upplýsingar sem gagnast ykkur fyrstu vikurnar í námi og starfi. Hikið ekki við að spyrja ef eitthvað er óljóst en netspjallið á heimasvæði HÍ veitir aðgang að þjónustueiningum skólans. Ég er þess líka fullviss að samnemendur ykkar veita hjálp eftir fremsta megni.

Núna í morgun lauk stjórn Rannsóknasjóðs úthlutun styrkja til nýrra rannsóknaverkefna fyrir þetta ár. Þrátt fyrir að um sé að ræða stærstu úthlutun sjóðsins frá upphafi er úthlutunarhlutfall aðeins 23% sem er áfram áhyggjuefni. Það er varla hægt að koma orðum að því hversu mikilvægt það er fyrir þessa þjóð og allt vísindastarf í landinu að hafa sterkan Rannsóknasjóð. Ég óska öllum styrkþegum innilega til hamingju með glæsilega styrki sem eru undirstaða mikilvægra rannsóknaverkefna á næstu misserum.

Háskóli Íslands er opinn og alhliða háskóli. Hann leggur þunga á að þjóna margvíslegum þörfum íslensks samfélags og atvinnulífs og er jafnframt þátttakandi í alþjóðasamfélagi vísinda og þekkingar. Í nýrri stefnu HÍ er lögð áhersla á alþjóðlegt samstarf, jafnrétti og samfélagslega nýsköpun. Í nýsköpunarhraðlinum Academy for Women Entrepreneurs (AWE) sameinast þessar þrjár áherslur en í honum leggja Háskóli Íslands og sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi saman krafta sína í annað sinn. Þessa dagana er leitað að þátttakendum í nýsköpunarhraðalinn, sem sérstaklega er ætlaður konum, en sem stendur er kynjahalli í nýsköpunargeiranum. Markmiðið með AWE-hraðlinum er að styðja konur við að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar. Ég hvet konur til að sækja um þátttöku en hraðallinn í fyrra tókst einkar vel og fjölmargar hugmyndir þaðan hafa vaxið og dafnað og eru jafnvel með alþjóðlegan markað í sjónmáli.

Þróun tækninnar er oft undirstaða nýsköpunar í atvinnulífi. Það er því verulega ánægjulegt að sjá hvernig Tæknifræðisetur HÍ hefur eflst og styrkst undanfarin misseri en það er starfrækt í samstarfi við Hafnarfjarðarbæ. Nemendum í tæknifræði hefur t.d. fjölgað um þriðjung við setrið á síðustu þremur árum en nú er verið að stækka Tæknifræðisetrið enn frekar, íslensku atvinnulífi til hagsbóta. Við Tæknifræðisetrið er rík áhersla á hagnýt tengsl við atvinnulíf en þar er auk tæknifræðinnar boðið upp á diplómanám í tæknigreinum á fagháskólastigi sem er fjölfaglegt nám og afar hagnýtt.

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Útbreiðsla kórónuveirunnar er sannarlega áhyggjuefni enn sem fyrr og hafa almannavarnir nú lýst yfir neyðarstigi. Staða Landspítalans er líka erfið. Þótt vindurinn standi í fangið verðum við að halda ótrauð áfram sem aldrei fyrr til að verja samfélagið allt og starf Háskólans sem er undirstaða atvinnulífs framtíðarinnar! Stöndum saman.

Fylgjum sóttvarnareglum án undantekninga; höldum fjarlægð, þvoum og sprittum hendur og berum andlitsgrímur. Munum að koma ekki til skóla ef við finnum minnstu einkenni. Þiggjum bóluefni við COVID-19 því rannsóknir staðfesta að fullbólusettir veikjast síður alvarlega auk þess að þurfa miklu síður á sjúkrahúsinnlögn að halda.

Með því að huga að eigin sóttvörnum verndum við ekki einungis okkur sjálf heldur alla í kringum okkur og þar með samfélagið allt.

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor"

""