Skip to main content
3. nóvember 2025

Nýtt húsnæði Menntavísindasviðs styður við fjölbreyttari kennsluhætti

Leikstofa - skólastofa í Sögu

Í nýju húsnæði Menntavísindasviðs í Sögu er skólastofa (leikstofa) sérstaklega hönnuð og ætluð til að styðja við fjölbreytta kennsluhætti í kennaranámi.

Leikstofan er ætluð til kennslu með áherslu á leikskólabörn, yngstu börn grunnskóla og börn með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn, en einnig fyrir almenna kennslufræði.

Í síðustu staðlotu voru nemendur í námskeiðinu Á mótum leik- og grunnskóla (KME502G) í verklegum tíma í einingakubbum.
Vinna með einingakubba er þar kynnt sem leið til náms barna á mótum leik- og grunnskóla og sem lið í að skapa samfellu í námi barna á þessum tímamótum. Þegar leikið er með kubbana skapast fjölmörg námstækifæri sem tengjast samvinnu, lausnaleit, læsi og stærðfræði, svo eitthvað sé nefnt.

Markmið kennslustundarinnar var því að gefa kennaranemum tækifæri til að setja sig í spor barna og á sama tíma að læra um hvernig mögulegt er að samþætta leik og nám með því að gefa börnum tækifæri til að endurskapa reynslu sína, gera tilraunir og leita lausna í leik með kubbana. Þannig geta kennaranemar lært í gegnum leik og sköpun og betur skilið hvernig leikur getur verið leið til að brúa bil milli skólastiga.

Sara Margrét Ólafsdóttir, dósentog formaður námsbrautar í leikskólakennarafræði, segir að við hönnun á nýju húsnæði hafi verið leitast við að skapa fjölbreytt námsumhverfi fyrir kennaranema: „Rannsóknir sýna eindregið hve mikilvægt er að virkja ung börn í námi sínu og þetta leggjum við ríka áherslu á í menntunarfræðum yngri barna. Við byggjum á bæði alþjóðlegum og innlendum rannsóknum sem sýna fram á að leikurinn er megin námsaðferð barna, og hlutverk kennara er því áð skapa umhverfi sem styður við frjálsan leik barna og kennsluaðferðir sem virkja leikgleði og sköpun.“ Þannig, segir Sara, er stuðlað að læsi, þroska, og samskiptahæfni nemenda og grunnur lagður að áframhaldandi námi þeirra.

leikstofa - skólastofa í Sögu
leikstofa - skólastofa í Sögu
leikstofa - skólastofa í Sögu
leikstofa - skólastofa í Sögu