Nýr sjóður við Háskóla Íslands styður félagsráðgjöf og vísindafræði
Nýr sjóður hefur verið stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands og nefnist hann Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins. Stofnendur sjóðsins eru hjónin Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, sem bæði eru fyrrverandi prófessorar við skólann. Sigrún og Þorsteinn undirrituðu skipulagsskrá sjóðsins á föstudag ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands.
Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og stofnandi Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann. Stofnfé sjóðsins er 40 milljónir króna.
Sjóðnum nýja er annars vegar ætlað að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf með áherslu á málefni barna og fjölskyldna og hins vegar vísindafræði, nánar tiltekið rannsóknir og nýjungar sem tengjast vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun.
Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og stofnandi Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann.
Sigrún stofnaði Sigrúnarsjóð árið árið 2012 í tengslum við Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við Háskóla Íslands. Árið 2016 var hann færður undir hatt Styrktarsjóða Háskóla Íslands og hefur sjóðurinn veitt styrki til doktorsrannsókna á sviði félagsráðgjafar. Þorsteinn vann að stofnun Vísindavefsins árið 2000 og var aðalritstjóri hans 2000-2010. Vísindavefurinn er einn mikilvægasti vettvangur vísindamiðlunar á Íslandi og hefur frá upphafi verið eitt af vinsælustu vefsetrum landsins.
Rektor Háskóla Íslands skipar stjórn sjóðsins og í henni sitja Sigurveig H. Sigurðardóttir dósent, fulltrúi Félagsráðgjafardeildar, Einar H. Guðmundsson, prófessor emeritus, fulltrúi Raunvísindadeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar, og Vilhjálmur Þorsteinsson, sonur Þorsteins og fulltrúi stofnenda sjóðsins.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.