Skip to main content
7. nóvember 2017

Nýr heiðursdoktor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild

Arnfríður Guðmundsdóttir og Gordon Lathrop

Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands veitti Gordon Lathrop heiðursdoktorsnafnbót við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 3. nóvember síðastliðinn. Heiðursnafnbótin var veitt í tilefni af 500 ára afmæli lútherskrar siðbótar og hlaut Lathrop hana fyrir framlag sitt til þróunar kennimannlegrar guðfræði sem fræðigreinar á alþjóðlegum vettvangi og sérstaklega fyrir framlag til fræðigreinarinnar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands. Það var Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti deildarinnar, sem afhenti honum viðurkenninguna. (Hér má skoða myndir frá athöfninni).

Gordon Lathrop er mikilsvirtur fræðimaður á sviði kennimannlegrar guðfræði með áherslu á helgisiðafræði. Hann á að baki farsælan feril sem kennari og fræðimaður og hefur m.a. veitt alþjóðlegum samtökum á sínu fræðisviði, Societas Liturgica, forystu, en hann sat lengi í stjórn samtakanna og var forseti þeirra 2011-2013. Lathrop er fæddur í Glendale í Kaliforníu 2. september 1939. Hann lauk doktorsprófi í nýjatestamentisfræðum (cum laude) frá Háskólanum í Nijmegen í Hollandi árið 1969 og vígðist til prests í lútherskum söfnuði í Darlington í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum sama ár. Á árunum 1989-2004 var dr. Lathrop prófessor í kennimannlegri guðfræði við Lutheran Theological Seminary at Philadelphia og er nú prófessor emeritus við sama skóla. 2006-2012 var hann gestaprófessor við Institute of Sacred Music og Guðfræðideildina við Yale University. Á liðnum árum hefur hann kennt víða, m.a. í St. Thomas Aquinas University í Róm á Ítalíu, Kaupmannahafnarháskóla og Virginia Theological Seminary í Alexandríu. Hann hefur starfað sem ráðgjafi og leiðbeinandi  á vegum helgisiðanefnda The Evangelical Lutheran Church of America í Bandaríkjunum og einnig víða í Evrópu. Hann er nú búsettur í Arlington í Virginíu-fylki, í Bandaríkjunum.

Dr. Lathrop hefur verið afkastamikill fræðimaður og er höfundur á þriðja tug fræðirita. Meðal bóka hans má nefna:

  • Holy Things: A Liturgical Theology (Minneapolis: Fortress, 1993)
  • Holy People: A Liturgical Eschatology (Minneapolis: Fortress, 1999)
  • Holy Ground: A Liturgical Cosmology ( Minneapolis: Fortress, 2003)
  • The Pastor: A Spirituality (Minneapolis: Fortress, 2006)

Nýjasta verk hans, Saving Images: On the Bible and Christian Liturgy kemur út hjá Fortress Press síðar á þessu ári. Auk þess hafa birst eftir hann á prenti tæplega 150 greinar og bókakaflar, m.a. í Ritröð Guðfræðistofnunar, Studia Theologica Islandica.

Dr. Lathrop hefur um áratugaskeið verið eftirsóttur fyrirlesari um allan heim, m.a. ítrekað flutt fyrirlestra á Norðurlöndunum. Hann hefur komið margsinnis til Íslands á síðustu þremur áratugum, flutt opinbera fyrirlestra á sviði kennimannlegrar guðfræði á vegum Guðfræðistofnunar og Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og einnig leiðbeint doktors- og meistaranemum deildarinnar í kennimannlegri guðfræði. Auk þess hefur hann haldið erindi og námskeið fyrir íslenska presta og guðfræðinga og verið ráðgjafi helgisiðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar.

Arnfríður Guðmundsdóttir og Gordon Lathrop

Arnfríður Guðmundsdóttir og Gordon Lathrop