Nýr heiðursdoktor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild
Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands veitti Gordon Lathrop heiðursdoktorsnafnbót við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands þann 3. nóvember síðastliðinn. Heiðursnafnbótin var veitt í tilefni af 500 ára afmæli lútherskrar siðbótar og hlaut Lathrop hana fyrir framlag sitt til þróunar kennimannlegrar guðfræði sem fræðigreinar á alþjóðlegum vettvangi og sérstaklega fyrir framlag til fræðigreinarinnar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands. Það var Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti deildarinnar, sem afhenti honum viðurkenninguna. (Hér má skoða myndir frá athöfninni).
Gordon Lathrop er mikilsvirtur fræðimaður á sviði kennimannlegrar guðfræði með áherslu á helgisiðafræði. Hann á að baki farsælan feril sem kennari og fræðimaður og hefur m.a. veitt alþjóðlegum samtökum á sínu fræðisviði, Societas Liturgica, forystu, en hann sat lengi í stjórn samtakanna og var forseti þeirra 2011-2013. Lathrop er fæddur í Glendale í Kaliforníu 2. september 1939. Hann lauk doktorsprófi í nýjatestamentisfræðum (cum laude) frá Háskólanum í Nijmegen í Hollandi árið 1969 og vígðist til prests í lútherskum söfnuði í Darlington í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum sama ár. Á árunum 1989-2004 var dr. Lathrop prófessor í kennimannlegri guðfræði við Lutheran Theological Seminary at Philadelphia og er nú prófessor emeritus við sama skóla. 2006-2012 var hann gestaprófessor við Institute of Sacred Music og Guðfræðideildina við Yale University. Á liðnum árum hefur hann kennt víða, m.a. í St. Thomas Aquinas University í Róm á Ítalíu, Kaupmannahafnarháskóla og Virginia Theological Seminary í Alexandríu. Hann hefur starfað sem ráðgjafi og leiðbeinandi á vegum helgisiðanefnda The Evangelical Lutheran Church of America í Bandaríkjunum og einnig víða í Evrópu. Hann er nú búsettur í Arlington í Virginíu-fylki, í Bandaríkjunum.
Dr. Lathrop hefur verið afkastamikill fræðimaður og er höfundur á þriðja tug fræðirita. Meðal bóka hans má nefna:
- Holy Things: A Liturgical Theology (Minneapolis: Fortress, 1993)
- Holy People: A Liturgical Eschatology (Minneapolis: Fortress, 1999)
- Holy Ground: A Liturgical Cosmology ( Minneapolis: Fortress, 2003)
- The Pastor: A Spirituality (Minneapolis: Fortress, 2006)
Nýjasta verk hans, Saving Images: On the Bible and Christian Liturgy kemur út hjá Fortress Press síðar á þessu ári. Auk þess hafa birst eftir hann á prenti tæplega 150 greinar og bókakaflar, m.a. í Ritröð Guðfræðistofnunar, Studia Theologica Islandica.
Dr. Lathrop hefur um áratugaskeið verið eftirsóttur fyrirlesari um allan heim, m.a. ítrekað flutt fyrirlestra á Norðurlöndunum. Hann hefur komið margsinnis til Íslands á síðustu þremur áratugum, flutt opinbera fyrirlestra á sviði kennimannlegrar guðfræði á vegum Guðfræðistofnunar og Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og einnig leiðbeint doktors- og meistaranemum deildarinnar í kennimannlegri guðfræði. Auk þess hefur hann haldið erindi og námskeið fyrir íslenska presta og guðfræðinga og verið ráðgjafi helgisiðanefndar íslensku þjóðkirkjunnar.