Skip to main content
4. júní 2021

Ný framtíðarstefna Háskóla Íslands undir kjörorðunum „Betri háskóli – betra samfélag“ 

Ný framtíðarstefna Háskóla Íslands undir kjörorðunum „Betri háskóli – betra samfélag“  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (4. júní):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Ný framtíðarstefna Háskóla Íslands fyrir tímabilið 2021-2026 var samþykkt í gær af háskólaráði og nú er það hlutverk okkar allra að fylgja eftir þeim mikilvægu leiðarljósum sem þar vísa veginn. 

Í nýju stefnunni kemur fram einbeittur vilji okkar til að sækja fram á öllum sviðum í opnu og alþjóðlegu umhverfi náms og rannsókna. 

  • Við ætlum okkur að vera þverfagleg til að geta mætt betur þeim stóru áskorunum sem framtíðin leggur okkur á herðar og móta kröftugt umhverfi rannsókna og nýsköpunar. 
  • Við ætlum okkur einnig að efla samtal og samstarf við íslenskt samfélag til að ávinna okkur áfram það traust sem okkur er sýnt og byggir á helgun okkar við gæði. 
  • Þá ætlum við að hlúa að fjölbreytni, sjálfbærni og jafnrétti á öllum sviðum háskólastarfsins.
  • Við erum sannfærð um að gagnkvæm virðing, jákvæð og hvetjandi samskipti séu undirstaða vellíðunar og við ætlum okkur að vera áfram til fyrirmyndar í þeim efnum sem stærsti vinnustaður landsins.

Við ætlum einnig að þróa áfram öfluga kennsluhætti í stað- og fjarnámi og miða þjónustu við ykkar þarfir, kæru nemendur og samstarfsfólk. 

  • Við ætlum að innleiða stafrænar lausnir á öllum sviðum starfseminnar. Þetta mun skipta sköpum fyrir hæfni okkar til að takast á við síbreytilegan veruleika og aukna alþjóðlega samkeppni.
  • Loks ætlum við að auka afl á grunni gæða og verða betri háskóli sem mótar betra samfélag.

Ég vil þakka stýrihópi stefnunnar fyrir frábæra vinnu í þágu skólans og samfélagsins en ekki síður ykkur öllum sem hafa komið að mótun stefnunnar sem unnin var í nánu samráði við samfélagið allt. Nýja stefnan verður kynnt á ársfundi Háskóla Íslands 14. júní nk. sem verður í beinu streymi.

Nýsköpun hefur verið í háskerpu þeirrar stefnu sem við mörkuðum fyrir sex árum og í nýrri stefnu skólans tökum við enn markvissari skref í þágu frumkvæðis til framfara. Við höfum augun á samfélagslegri endurnýjun sem hefur víðtæk áhrif og leitar lausna við helstu áskorunum mannkyns.

Afar vel heppnaðri nýsköpunarviku lauk á þriðjudag með afhendingu Vísinda- og nýsköpunarverðlauna Háskóla Íslands. Nýtt lyfjaform gegn malaríu, sem ætlað er börnum, bar sigur úr býtum, en lausnina þarf ekki að gefa á sjúkrahúsum. Þrjú önnur verkefni fengu einnig verðlaun sem snúast um breytilega stífni gervifóta, snjallræna framsetningu á bráðnun jökla og hugbúnað til að virkja íslenskuna betur í stafrænum heimi. Ég óska verðlaunahöfum innilega til hamingju. 

Sumarnámið er nú hafið og er ánægjulegt að sjá aðsóknina. Enn er hægt að skrá sig í sum námskeið og eru nemendur sérstaklega hvattir til að skrá sig í þau námskeið sem eru að hefjast á næstu dögum. Boðið er upp á rúmlega 70 námskeið af öllu tagi, einingabær námskeið, undirbúningsnámskeið og fræðslunámskeið fyrir almenning.

Nú erum við að ráða sumarstarfsfólk í samvinnu við Vinnumálastofnun en um er að ræða nemendur á háskólastigi sem taka hér mikilvæg spor á leið sinni inn út í atvinnulífið. Ég fagna því og býð allt þetta öfluga fólk velkomið til starfa í Háskóla Íslands. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú líður að því að við brautskráum mikinn fjölda nemenda sem munu hafa ótvíræð áhrif í íslensku samfélagi á næstu árum og áratugum. Það er hlutverk háskóla að móta samfélagið öllum til hagsbóta og það er ekki síst gert með öflugri menntun og sköpun nýrrar þekkingar með rannsóknum. 

Brautskráningin fer fram í frjálsíþróttahöll Laugardalshallar og verður tvískipt. Árdegis kl. 10-12 brautskrást grunn- og framhaldsnemar frá deildum Félagsvísindasviðs og Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og síðdegis kl. 13.30-15.30 brautskrást grunn- og framhaldsnemar frá deildum Heilbrigðisvísindasviðs, Hugvísindasviðs og Menntavísindasviðs. 

Njótið helgarinnar sem best þið getið en förum áfram að öllu með gát. 

Jón Atli Benediktsson, rektor.“
 

Frá brautskráningu Háskóla Íslands