Ný bók um stjórnarskrár Norðurlanda
Bókin The Nordic Constitutions – A Comparative and Contextual Study kom út hjá Hart Publishing í Bretlandi 24. ágúst sl. Bókin er afrakstur samvinnuverkefnis fræðimanna í stjórnskipunarrétti í sex háskólum á Norðurlöndum. Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, er annar ritstjóra og meðal höfunda bókarinnar.
Í ritinu eru rannsakaðar stjórnarskrár og stjórnskipunarkerfi Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, borið saman hvað þau eiga sameiginlegt í sögulegu, stjórnmálalegu og lagalegu samhengi og hvað greinir þau að. Auk ítarlegs kafla um rætur stjórnskipunarkerfa norrænu ríkjanna fjallar hver kafli um eitt lykilatriði á sviði stjórnskipunarréttar í ríkjunum fimm og gerð er heildstæð greining á hvernig það birtist í stjórnskipun hvers lands.
Markmið með útgáfu bókarinnar er tvíþætt. Annars vegar er hún framlag á ensku til rannsókna á stjórnskipun Norðurlanda sem aðgengilegt er öllum fræðimönnum en ekki aðeins á norrænum vettvangi. Hins vegar varpar bókin ljósi á hvað ríkin eiga sameiginlegt í nokkrum lykilþáttum stjórnskipunarinnar og í hvaða tilliti þau eru ólík eða hafa þróast í ólíkar áttir. Meðal þess sem er sérstaklega rannsakað eru áhrif þess að norrænu ríkin hafa farið ólíkar leiðir í Evrópusamvinnu, þar sem Danmörk, Finnland og Svíþjóð eru í Evrópusambandinu en Ísland og Noregur aðilar að EES-samningnum. Þá eru metin og borin saman áhrif Mannréttindasáttmála Evrópu á stjórnskipun ríkjanna og hvernig samspili mannréttindaákvæða í stjórnarskrám þeirra við ákvæði sáttmálans er háttað.
Aðrir höfundar kafla í bókinni eru Helle Krunke, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, sem einnig er annar ritstjóra bókarinnar, Eivind Smith, prófessor við Oslóarháskóla, Tuomas Ojanen, prófessor við Háskólann í Helsinki, Markku Suksi, prófessor við Háskólann í Åbo, og Thomas Bull, dómari við æðsta stjórnsýsludómstólinn í Svíþjóð og áður prófessor við Uppsalaháskóla.
Nánari upplýsingar um bókina er að finna á heimasíðu útgefandans, Hart Publishing.