Skip to main content
28. mars 2019

Ný bók um nauðgun og önnur kynferðisbrot

Út er komin bókin Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks eftir Ragnheiði Bragadóttur, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands. Undanfarin ár hefur Ragnheiður unnið að viðamiklu rannsóknarverkefni um kynferðisbrotin undir heitinu Kynferðisbrot – Löggjöf og dómaframkvæmd og birtast ýmsar niðurstöður þeirrar rannsóknar í nýju bókinni.

Í bókinni er að finna yfirgripsmestu og ítarlegustu umfjöllun sem birst hefur um ákvæði íslensku hegningarlaganna um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks, hina refsiverðu háttsemi og refsingar fyrir brotin, með samanburði við norrænan rétt. Efni bókarinnar skiptist í sex hluta. Í fyrsta hlutanum er fjallað um ýmis almenn atriði sem eiga við um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Þar er einnig gerð grein fyrir réttarsögulegri þróun lagaákvæða um nauðgun frá upphafi Íslandsbyggðar allt fram á okkar daga þegar hugtakið samþykki var tekið inn í ákvæðið um nauðgun árið 2018. Næstu fjórir hlutar fjalla um einstakar brotategundir, þ.e. nauðgun sem felst í kynmökum án samþykkis, nauðgun þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, kynferðislega misneytingu og kynferðislega áreitni.

Ragnheiður Bragadóttir lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands 1982 og stundaði framhaldsnám við Háskólann í Kaupmannahöfn. Hún hefur stundað kennslu og rannsóknir í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands frá 1984 og varð prófessor í lögum þann 1. janúar 2000, fyrst íslenskra kvenna. Ragnheiður er mjög virkur þátttakandi í norrænu og alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og hefur stýrt alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og dvalið við rannsóknir í háskólum á Norðurlöndum, Þýskalandi, Englandi og Bandaríkjunum. Hún var fulltrúi Íslands í Norræna sakfræðiráðinu 1998-2012, varaformaður 2007-2009 og formaður 2010-2012. Ragnheiður á að baki langan ritferil og hefur birt bækur, fjölda bókarkafla og fræðiritgerða, bæði hér heima og erlendis. 

Fjölmargir dómar eru reifaðir til að varpa ljósi á einstaka þætti efnisins og í bókinni er tæmandi lýsing á dómaframkvæmd Hæstaréttar í málum er varða nauðgun og kynferðislega áreitni. Í lokakafla bókarinnar er kannað hvort nýlegar lagabreytingar hafi orðið til þess að bæta réttarstöðu þolenda brotanna og hvort þörf sé á frekari breytingum. Leitast er við að setja viðfangsefnið í þjóðfélagslegt samhengi, auk þess sem fjallað er um gildandi lagaákvæði og túlkun dómstóla á gagnrýninn hátt. 

Bókin er ætluð öllum þeim sem stunda rannsóknir á þessu sviði og til kennslu á háskólastigi, bæði í lögfræðigreinum og öðrum greinum félagsvísinda. Hún er ómissandi fyrir lögfræðinga og aðra sem fjalla um kynferðisbrotamál í störfum sínum. Auk þess er hún aðgengileg öllum þeim sem láta sig varða þetta mikilvæga svið réttarins og felur í sér framlag til þjóðfélagsumræðunnar á þessu sviði. 
Útgefandi er Bókaútgáfan Codex. Útsölustaðir eru Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, Bóksala Úlfljóts, Lögbergi og nokkrar verslanir Pennans/Eymundssonar. Einnig er bókin fáanleg á Heimkaup.is.

Ragnheiður Bragadóttir og kápa bókarinnar