Ný bók um mannréttindi í stjórnarskrá
Björg Thorarensen, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands, er höfundur bókarinnar „Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi 2. útgáfa“ sem komin er út á vegum Bókaútgáfunnar Codex. Bókin kom fyrst út árið 2008 en hefur verið uppseld síðustu ár. Hún er grundvallarrit um mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar sem einnar grunnstoðar íslenskrar stjórnskipunar.
Í fyrri hluta ritsins er rannsakaður sögulegur uppruni og kenningar um eðli mannréttindareglna, skýring stjórnarskrárákvæðanna og áhrif alþjóðasamninga. Stærsti hlutinn fjallar um einstök mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, þróun þeirra og réttarframkvæmd um beitingu þeirra. Í þessari útgáfu hefur efnið verið endurskoðað og uppfært með tilliti til dómaframkvæmdar frá síðasta áratug og nýrra fræðilegra heimilda. Margir stefnumarkandi dómar hafa gengið þar sem reynt hefur á túlkun mannréttindaákvæðanna. Auk þess er fjallað um úrlausnir Mannréttindadómstóls Evrópu, einkum í kærumálum gegn íslenska ríkinu og metin áhrif þeirra á skýringu stjórnarskrárákvæða og íslenskan rétt.
Ritið er ætlað þeim sem stunda rannsóknir, nám og kennslu á sviði stjórnskipunarréttar og mannréttinda. Það er einnig ómissandi fyrir lögmenn, dómara og stjórnvöld sem fást við álitaefni um mannréttindi svo hvern þann sem vill kynna sér gildandi réttarreglur á þessu sviði.
Björg hefur ritað fjölmargar greinar og bækur á rannsóknarsviðum sínum í stjórnskipunarrétti, mannréttindum og þjóðarétti, þar á meðal ritið „Stjórnskipunarréttur. Undirstöður og handhafar ríkisvalds“ sem kom út árið 2015 og myndar ásamt ofangreindu riti heildstæða útgáfu um stjórnskipunarrétt.