Ný bók um hagkvæmari og sjálfbærari sjávarútveg
Í nýrri bók eftir Ástu Dís Óladóttur, dósent við Háskóla Íslands, og Ágúst Einarsson, sem var rektor Háskólans á Bifröst, prófessor við Háskóla Íslands og alþingismaður, er fjallað um þær miklu breytingar sem hafa orðið í sjávarútvegi og hvaða leiðir eru færar í framtíðinni til sjálfbærari og hagkvæmari útgerðar og fiskeldis. Bókin kom út í dag á vegum Academic Press, sem er hluti ELSEVIER-forlagsins, eins stærsta og virtasta útgáfufyrirtækis í heimi.
Bókin nefnist „Fisheries and Aquaculture: The Food Security of the Future“ og byggist á áralöngum rannsóknum Ástu Dísar og Ágústs á umhverfi sjávarútvegs víða um heim. Hún fjallar um sjávarútveg og fiskeldi í alþjóðlegu samhengi í ljósi fæðuöryggis framtíðarinnar. Í bókinni er þessum atvinnugreinum lýst og þær greindar og sýnt er fram á mikilvægi þeirra í hagkerfi þjóða, meðal annars í þróunarlöndunum. Sýnt er hvernig bæta má árangur fyrirtækja og landa á þessum sviðum, m.a. með tækninýjungum.
Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands og núverandi formaður Hringborðs norðurslóða, skrifar inngangsorð að bókinni og dregur þar meðal annars fram hvernig höfundar nýta þekkingu sína á íslenskum sjávarútvegi til að lýsa sjávarútvegi og fiskeldi á heimsvísu á heilsteyptan hátt og vaxandi hlutverki þessara atvinnugreina í fæðuöflun heimsins.
ELSEVIER-forlagið gefur árlega út fjölda bóka og tímarita og starfar í fjölda landa. Það er leiðandi á heimsvísu í útgáfu í mörgum vísindagreinum. Það er mikill heiður fyrir íslenskt fræðasamfélag að bók eftir íslenska höfunda skuli vera gefin út fyrir alþjóðlegan markað af þessu virta forlagi.
Bókin er ætluð þeim sem starfa í sjávarútvegi, stefnumótendum í greininni, fræðimönnum, háskólanemum og öllum þeim sem áhuga hafa á þróun sjávarútvegs til framtíðar.