Ný bók um áhrif fjármálakreppunnar á lífskjör í Evrópu
Nýlega kom út hjá Oxford University Press bókin „Welfare and the Great Recession: A Comparative Study“ í ritstjórn Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, Mary Daly, Olli Kangas og Joakim Palme.
Bókin fjallar um áhrif fjármálakreppunnar á lífskjör 30 Evrópuþjóða. Sýnt er hvernig fjárhagslegar þrengingar heimila breyttust í kjölfar kreppunnar og greint ítarlega hvernig velferðarkerfi þjóðanna og viðbrögð stjórnvalda urðu til að milda eða magna afleiðingar kreppunnar fyrir almenning.
Bókin byggist m.a. á rannsóknarverkefni sem unnið var við Háskóla Íslands undir stjórn Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði. Með honum unnu að verkefninu Agnar Freyr Helgason, stjórnmálahagfræðingur við Háskóla Íslands, og Kolbeinn H. Stefánsson, félagsfræðingur á Hagstofu Íslands. Verkefnið var fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og stóð frá 2014 til 2019.
Bókin hefur hlotið lofsamleg ummæli frá heimsþekktum sérfræðingum á þessu fræðasviði eins og sjá má á vefsíðu Oxford University Press. Þar er jafnframt að finna nánari upplýsingar um bókina.