Skip to main content
24. september 2018

Ný bók eftir Baldur Þórhallsson prófessor

Á dögunum kom út bók sem Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, ritstýrði. Bókin ber nafnið „Small States and Shelter Theory: Iceland’s External Affairs“. Um er að ræða eina yfirgripsmestu rannsókn sem gerð hefur verið á pólítískum, efnahagslegum og félagslegum samskiptum Íslands við nágrannaríki og alþjóðastofnanir.

Í bókinni er fjallað um alþjóðasamskipti Íslands frá 1940 til dagsins í dag. Þar er staða Íslands í samfélagi þjóðanna greind út frá kenningunni um skjól sem fjallar um mikilvægi þess að lítil ríki hafi efnahagslegt, pólitískt og félagslegt skjól.

Það skjól sem Ísland hefur notið af náinni samvinnu við nágrannaríki og alþjóðastofnanir hefur verið vanmetið í gegnum tíðina þó svo að umtalsverður kostnaður hafi fylgt skjóli á stundum. Til dæmis hefur norðurlandasamvinna veitt Íslandi mun meira skjól en oft er talið. Einnig er félagslegt skjól af þátttöku í Evrópusamvinnu mun umfangsmeira en gert var ráð fyrir í upphafi.

Eftir að Bandaríkin lokuðu herstöð sinni og neituðu Íslendingum um aðstoð í efnahagshruninu hafa íslenskir ráðamenn víða leitað skjóls. Sem dæmi má nefna að Ísland vinnur nánar með NATO og nágrannaríkjum að varnarmálum, aukin áhersla er lögð á samvinnu við Norðurlöndin, gerður hefur verið fríverslunarsamningur við Kína, sótt var um aðild að Evrópusambandinu og margir sjá tækifæri í samvinnu við Bretland eftir Brexit. Eigi að síður hefur ekki tekist að tryggja landinu jafn umfangsmikið skjól og Bandaríkin veittu á tímum kalda stríðsins.

Hægt er að nálgast bókina á heimasíðu Routledge forlagsins: https://www.routledge.com/Small-States-and-Shelter-Theory-Icelands-External-Affairs/Thorhallsson/p/book/9781138615373

Bókin verður einnig fáanleg í Bóksölu stúdenta á næstu vikum.

Bókarkápa