Níu framúrskarandi kennarar teknir inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna
Níu framúrskarandi háskólakennarar voru teknir inn í Kennsluakademíu opinberu háskólanna á sérstakri athöfn sem fram fór á Litla Torgi í HÍ föstudaginn 4. nóvember.
Kennsluakademía opinberu háskólanna var stofnuð árið 2021 með stuðningi frá stjórnvöldum. Akademían er að norrænni fyrirmynd og er markmið hennar að stuðla að samtali um kennslu og kennsluþróun innan og milli opinberu háskólanna. Ár hvert eru einstaklingar, sem skarað hafa fram úr í kennslu og kennsluþróun, teknir inn í Kennsluakademíuna á grundvelli umsóknar og viðtals sem alþjóðleg nefnd sérfræðinga í háskólakennslu metur.
Fyrstu 11 meðlimir Kennsluakademíunnar voru teknir inn árið 2021 og nú hafa níu háskólakennarar bæst í hópinn. Það eru þau:
- Edda Ruth Hlín Waage, lektor við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
- Elsa Eiríksdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ
- Guðrún Geirsdóttir, dósent við Menntavísindasvið og forstöðumaður Kennslumiðstöðvar HÍ
- Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor við Menntavísindasvið HÍ
- Rannveig Sverrisdóttir, lektor við Íslensku- og menningardeild HÍ
- Sigurður Guðjónsson, lektor við Viðskiptafræðideild HÍ
- Sigurður Örn Stefánsson, prófessor við Raunvísindadeild HÍ
- Silja Bára R. Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild HÍ
- Snædís Huld Björnsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ
Meðlimir Kennsluakademíunnar hafa allir verið mjög virkir í þróun kennsluhátta og brautryðjendur í nemendamiðuðum og virkum kennsluaðferðum. Dæmi um þau verkefni sem meðlimir Kennsluakademíunnar hafa staðið fyrir má finna í umsóknum sem aðgengilegar eru á vefsíðu Kennsluakademíunnar. Þar má einnig finna upplýsingar um málþing um háskólakennslu sem Kennsluakademían stóð fyrir síðasta vor.
Þau sem hafa áhuga á því að fylgjast með störfum Kennsluakademíunnar og viðburðum á hennar vegum eru hvött til þess að skrá sig á póstlista Kennsluakademíunnar.