Niðurstöður rökræðupallborðs kynntar og ræddar á háskólaþingi

Fjallað verður um niðurstöður svokallaðs rökræðupallborðs, sem sett var á laggirnar innan Háskóla Íslands í tengslum við málefni Ísraels og Palestínu, á háskólaþingi sem fram fer í dag, miðvikudaginn 19. nóvember kl. 13-15.15. Þingið verður í beinu streymi.
Háskólaþing, sem fer alla jafna fram einu sinni á misseri, er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu Háskóla Íslands. Seturétt á þinginu eiga um 100 manns, þar á meðal stjórnendur skólans, kjörnir fulltrúar fræðasviða, fulltrúar helstu stofnana háskólans og samstarfsstofnana hans, kennarafélaga og stúdenta auk fulltrúa starfsmanna stjórnsýslu og úr háskólaráði.
Í aðdraganda háskólaþings nú var slembivalinn hópur fólks úr háskólasamfélaginu beðinn um að taka þátt í rökræðupallborði og undirbúa umræður á háskólaþingi með skipulegum rökræðum um hvort og þá hvernig Háskóli Íslands geti í starfsemi sinni tekið tillit til og brugðist við því ástandi sem skapast hefur vegna loftárása og landhernaðar á Gaza. Miðað var við að í rökræðupallborðinu ættu sæti bæði fulltrúar stúdenta, fastra kennara og rannsakenda, starfsfólks í stjórnsýslu og stundakennara.
Markmið rökræðupallborðsins var ekki að ljúka málinu með ályktun sem háskólaþing gerði að sinni heldur var hlutverkið fremur að greina mikilvægustu röksemdir og sjónarmið og leggja línur fyrir frekari umræður á háskólaþingi. Dagskrá þingsins verður að mestu helguð þessu málefni.
Eftir að rektor hefur reifað það sem efst er á baugi innan skólans mun Jón Ólafsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, fara yfir aðferðafræði og skipulag rökræðupallborðsins. Í framhaldinu munu fulltrúar rökræðuhópsins, þau Rósa Signý Gísladóttir, dósent við Íslensku- og menningardeild, og Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild, fylgja áliti hans úr hlaði. Að því loknu verður boðið upp á umræður um álit rökræðupallborðsins.
Sem fyrr segir verður hægt að fylgjast með háskólaþingi í streymi.
