Nemendur í viðskiptafræðideild meðal vinningshafa í alþjóðlegri samkeppni
Meistaranemar við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands lentu í öðru sæti í samkeppni sem haldin er árlega á vegum Institute for Strategy and Competitiveness við Harvard-háskóla. Samkeppnin er haldin í tengslum við námskeið um samkeppnishæfni sem þróað er og haldið utan um við Harvard en kennt í um 120 háskólum um allan heim. Háskóli Íslands hefur boðið upp á námskeiðið frá árinu 2007.
Skólarnir sem kenna námskeiðið tilnefna nemendaverkefni sem unnin eru sem hluti af námskeiðinu í samkeppnina og eru 3 bestu verkefnin verðlaunuð árlega. Íslenska verkefnið fjallaði um viskýklasann í Skotlandi og lenti það í öðru sæti. Höfundar voru Bragi Rúnar Jónsson, Hrefna Guðmundsdóttir, Jóhann Skúli Björnsson, Ólafur Frímann Kristjánsson og Sigurður Nordal. Þau kynntu verkefnið fyrir fulltrúum skólanna 120 á ráðstefnu sem haldin var í desember sl. Nemendurnir unnu verkefnið þegar þau sátu námskeiðið haustið 2020.
Um 70 þúsund nemendur um allan heim hafa tekið þetta námskeið sl. 20 ár og nemendaverkefnin sem hafa verið unnin í tengslum við það eru líklega farin að nálgast 20 þúsund. Við Háskóla Íslands hafa Runólfur Smári Steinþórsson og Gylfi Magnússon, báðir prófessorar í Viðskiptafræðideild, haldið utan um kennsluna. Þetta er í annað sinn sem íslenskt verkefni hlýtur verðlaun í þessari samkeppni en árið 2018 lenti hópur sem skoðaði tónlistarklasann í Stokkhólmi í þriðja sæti.