Skip to main content
26. mars 2020

Nemendur á Heilbrigðisvísindasviði aðstoða Almannavarnir vegna COVID-19

Stór hópur nemenda við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands aðstoðar nú smitrakningateymi Almannavarna og Sóttvarnalæknis við að hringja í fólk sem á að vera í sóttkví.

Almannavarnir höfðu samband við Heilbrigðisvísindasvið eftir að sviðsforseti hafði boðið landlækni aðstoð sviðsins. Sviðið auglýsti í framhaldinu eftir nemendum til þessara starfa síðastliðinn mánudag með því að senda tölvupóst og svörin stóðu ekki á sér því strax á fyrstu klukkustund voru 50 nemendur búnir að bjóða sig fram og fljótlega voru hátt í 130 nöfn nemenda komin á lista. Starfið er skipulagt af teymi á skrifstofu sviðsins í samstarfi við Almannavarnir. 

Nemendur hafa það hlutverk að hringja í einstaklinga sem hafa komið með flugi í gegnum Keflavíkurflugvöll í vikunni og frá föstudeginum 20. mars, sem verða að lokum nokkur þúsund manns. Farþegarnir hafa fengið tölvupóst frá sóttvarnalækni og sjálfvirk SMS-skilaboð en það þykir ástæða til þess að fylgja því eftir með hringingu. Í símtalinu er spurt um heilsu og líðan og ef óskað er eftir því eru veittar leiðbeiningar um hvernig skuli haga sér í sóttkví. 

Þeir nemendur sem taka að sér úthringingar fá ítarlegar leiðbeiningar um smitvarnir og hegðun auk leiðbeininga um það hvernig símtalið eigi að fara fram og um trúnað og persónuvernd. Menntun nemendanna nýtist mjög vel við þetta starf og þeir því vel undir það búnir. Einnig felst námstækifæri í því að veita smitrakningateyminu aðstoð. Áætlað er að símtölum við fyrsta hóp farþega í sóttkví ljúki eigi síðar en á morgun, föstudaginn 27. mars.
 

""