Námskeið um norðurslóðir opið meistaranemum af öllum fræðasviðum HÍ

Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands býður upp á spennandi námskeið á vormisseri sem opið er meistaranemum af öllum fræðasviðum skólans en markmið þess er að finna nýstárlegar leiðir til þess að takast á við áskoranir norðurslóða. Þátttakendum býðst m.a. að fara til Grænlands og er frestur til að sækja um þátttöku í námskeiðinu til 6. nóvember.
Námskeiðið ber heitið ARCADE (Arctic Resilience through Climate Action, Development, and Education) og er í samstarfi við Háskólann í Tromsö - Norðurslóðaháskóla Noregs og Háskólann í Grænlandi auk Fróðskaparseturs Færeyja og Arctic Initiative við Harvard Kennedy School of Government í Bandaríkjunum. Háskóli Íslands leiðir ARCADE en auk Rannsóknaseturs um norðurslóðir koma fulltrúar frá Stjórnmálafræðideild, Sjálfbærnistofnun, Rannsóknasetri HÍ á Hornafirði og námsbraut í landfræði og ferðamálafræði að verkefninu innan HÍ.
Um er að ræða tíu eininga þverfræðilegt námskeið um málefni norðurslóða sem stendur frá janúar til júní 2026 og er áhersla á efla leiðtogahæfni og skapandi lausnir tengdar loftslagsmálum á norðurslóðum frá þverfræðilegu sjónarhorni.
Námskeiðið samanstendur af tveimur staðbundnum vikulöngum námskeiðum á Íslandi (í febrúar) og á Grænlandi (í júní) auk þess sem nemendur sækja kennslustundir á netinu og vinna hópverkefni á milli lota og efla hæfni sína í að kynna fræðilegar rannsóknir fyrir almenningi, fjölmiðlum og hagsmunaaðilum í ræðu og riti.
Sem fyrr segir geta allir meistaranemar innan HÍ sótt um þátttöku í námskeiðinu og hægt er að kynna sér nánara fyrirkomulag þess á vef Rannsóknaseturs um norðurslóðir.
Umsóknir um þátttöku skal senda á netfangið arcade@hi.is fyrir 6. nóvember 2025.
