Nær sjöhundruð erlendir nýnemar hefja nám í haust
Kynningardagar fyrir erlenda nemendur við Háskóla Íslands hófust í dag og standa til 24. ágúst. Tæplega sjö hundruð erlendir nemar hefja nám í haust, þar af 240 skiptinemar og um 450 á eigin vegum. Á dagskrá eru spennandi námskeið, skipulagðar gönguferðir um háskólasvæðið, móttaka með tónlist og grilluðum pylsum, kynningar fræðasviða og viðburðir á vegum Stúdentaráðs. Markmið daganna er að kynna þjónustu Háskólans og styðja nemendur í að aðlagast nýrri menningu og kynnast öðrum nemendum.
Náms- og starfsráðgjöf býður upp á námskeiðið The Keys to Success at the University of Iceland þar sem nemendur fá leiðbeiningar um hvernig vænlegast sé að ná árangri í námi við Háskólann og njóta dvalarinnar á Íslandi. Þá geta áhugasamir nemendur tekið þátt í örnámskeiði í íslensku, Icelandic in 90 minutes. Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn verður auk þess með kynningar á safninu og þjónustu þess.
Á fimmtudeginum 23. ágúst verður öllum erlendum nemendum boðið til móttöku á Háskólatorgi þar sem Jón Atli Benediktsson, rektor, og Elísabet Brynjarsdóttir, formaður Stúdentaráðs, flytja ávörp. Alþjóðanefnd Stúdentaráðs býður upp á gönguferðir um háskólasvæðið og boðið verður upp á grillaðar pylsur. Dagskráin heldur svo áfram í Stúdentakjallaranum þar sem DJ Fonetik Simbol heldur uppi stuðinu.
Kynningar fræðasviða eru einnig hluti af dagskrá kynningardaganna.