MBA-nám við HÍ eflt með samstarfi við Yale og IESE
Háskóli Íslands hefur gengið til samstarfs við Yale School of Management í Bandaríkjunum og IESE Business School of Navarra í Barcelona, sem báðir er í allra fremstu röð í heiminum á sviði MBA-náms. Með samstarfinu mun MBA-nám við Háskóla Íslands eflast verulega en það felur í sér að MBA-nemar Háskólans sitja afar krefjandi og öflug námskeið í hvorum samstarfsskóla á námstímanum.
„Þetta eru frábærar fréttir og mikil viðurkenning fyrir Háskóla Íslands,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. „MBA nemar skólans fá hér einstakt tækifæri og munu nema við tvo af bestu háskólum heims á þessu sviði. Svona tækifæri skapast með afar góðu orðspori Háskóla Íslands á alþjóðlegum vettvangi.“
Yale Shchool of Management er hluti af Yale-háskóla sem er í áttunda sæti yfir bestu háskóla heims samkvæmt röðun Times Higher Education. Yale School of Mangement er auk þess í ellefta sæti yfir þá skóla sem skara fram úr á heimsvísu í MBA-námi og IESE er í því tólfta samkvæmt mati Financial Times.
„Við þurfum að vera í takt við síbreytilegt umhverfi og undirbúa okkar nemendur sem best til að takast á við þær áskoranir sem blasa við okkur á næstu árum,“ segir Svala Guðmundsdóttir, stjórnarformaður MBA-námsins, en hún er jafnframt dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands. „Við verðum að líta til þess að við erum lítið land þar sem utanríkisviðskipti og alþjóðleg samvinna skipta miklu máli og því tel ég það styrkja námið til muna að geta boðið nemendum okkar tækifæri á að sitja námskeið við svo gríðarlega öfluga háskóla.”
Þeir sem hefja MBA-nám í haust í Háskóla Íslands munu fara í námsferð til IESE í Barcelona á vorönn árið 2020 og til Yale í New Haven í Bandaríkjunum á haustönn sama ár. Samstarf við þessa virtu háskóla hefur mikið faglegt gildi fyrir námið í heild og setur MBA-nám Háskóla Íslands í flokk þeirra bestu. Háskóli Íslands er nú þegar í hópi 300 bestu háskóla í heimi á hinum viðurkennda matslista Times Higher Education. Sú staða byggist ekki síst á mjög öflugu rannsóknastarfi og birtingum vísindamanna skólans í viðurkenndum erlendum vísindatímaritum. Styrkur Háskólans á listanum hefur tryggt honum fjölda samstarfssamninga við marga af fremstu háskólum heims.
„Þessir tveir háskólar sem nú hefja samstarf við Háskóla Íslands, Yale og IESE, eru í hópi þeirra allra fremstu og standa gríðarlega vel á sviði viðskiptamenntunar. Það skiptir því verulegu máli fyrir MBA-nemendur frá Háskóla Íslands að fá tækifæri til að stunda nám við háskóla sem standa svo framarlega og það gerir þeim kleift að bæta við alþjóðlegri reynslu og auka þekkingu sína. MBA-nám Háskóla Íslands er sniðið að þörfum íslensks atvinnulífs og með þessu samstarfi er hér um að ræða nám sem skipar sér í flokk með fremstu skólum í heimi,“ segir Svala.