Matvælafræðinemar fá tvenn verðlaun fyrir Frosta Skyr
Ný matvara sem samanstendur úr skyrflögum og ofurfæðunni spírulínu sem tveir nemendur í matvælafræði við Háskóla Íslands hafa þróað gerði það sannarlega gott í nýsköpunarkeppnum um liðna helgi. Hugmyndin varð í þriðja sæti í bæði frumkvöðlakeppninni Gullegginu og Ecotrophelia, evrópskri samkeppni háskólanema um vistvæna nýsköpun matvæla sem er jafnframt besti árangur Íslands í keppninni frá upphafi.
Varan heitir Frosti Skyr og er hugarfóstur þeirra Anítu Þórunnar Þráinsdóttur, BS-nema á þriðja ári í matvælafræði, og Guðrúnar Ölfu Einarsdóttur, sem brautskráðist með BS-gráðu í greininni í sumar.
„Frosti Skyr er hágæða íslenskt próteinduft sem einnig er hægt að nota sem hefðbundið skyr. Varan samanstendur af íslenskum frostþurrkuðum, laktósafríum skyrflögum með blárri spírulínu en það er næringarmikill og vítamínríkur þörungur og talinn til svokallaðrar ofurfæðu. Frosti Skyr virkar þannig að vatni er blandað saman við skyrflögurnar og þá fær maður aftur skyr í sinni upprunalegu mynd. Varan þarf ekki að vera geymd í kæli og getur geymst í mörg ár án viðkomu rotvarnarefna,“ útskýrir Aníta Þórunn og bætir við að einnig megi bæta Frosta Skyr í holla þeytinga.
Svona blandar þú Frosta Skyr
Þær Aníta Þórunn og Guðrún Alfa kynntust í Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. „Hugmyndin að Frosta Skyr kviknaði í námskeiðinu „Vöruþróun matvæla“ og við þróuðum hana svo áfram í áfanganum „Vistvæn nýsköpun matvæla“. Á sex vikum vorum við komnar með góða frumgerð af vörunni. Við fengum svo styrk í sumar frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til áframhaldandi þróunar. Frosti Skyr er í stöðugri þróun og mun þeirri vinnu líklega aldrei ljúka en varan er þó nánast söluhæf núna,“ útskýrir Guðrún Alfa.
Nýir möguleikar fyrir skyr á erlendum og innlendum mörkuðum
Þær stöllur ákváðu að skrá sig til leiks með hugmyndina í frumkvöðlakeppnina Gulleggið á vegum Icelandic Startups en markmið hennar er að styðja unga frumkvöðla til að þróa áfram hugmyndir sínar. Frosti Skyr var valin ein af tíu bestu hugmyndunum sem gaf þeim Anítu Þórunni og Guðrúnu Ölfu færi á sækja vinnsmiðjur undir handleiðslu reyndra frumkvöðla og um leið kynna hugmyndina fyrir dómefnd keppninnar. Svo fór að þær höfnuðu í þriðja sæti í Gullegginu og hlutu að launum 300 þúsund króna peningaverðlaun frá Landsbankanum auk tíu klukkustunda ráðgjafar hjá sérfræðingum Advel lögmanna.
„Með okkar vöru opnast áður óþekktir möguleikar fyrir íslenskt skyr bæði á erlendum og innlendum markaði. Frosti Skyr þarf ekki að vera geymdur í kæli og getur geymst í langan tíma án viðkomu rotvarnarefna. Einnig gefst kostur á því að selja marga skammta af skyri saman í einni pakkningu og jafnvel að selja skyrið umbúðalaust en með því sparast hellingur af umbúðum. Með Frosta Skyr er hægt að sporna gegn matarsóun með því að þurrka skyr sem komið er á síðasta söludag og gefa því þannig nýtt líf. Frosti Skyr sem íslenskt próteinduft getur líka verið staðgengill innflutts próteindufts að einhverju leyti en þannig mætti spara gjaldeyri og stuðla að bættri nýtingu innlendra auðlinda,“ segir Aníta Þórunn.
Frosti Skyr þarf ekki að vera geymdur í kæli og getur geymst í langan tíma án viðkomu rotvarnarefna. Einnig gefst kostur á því að selja marga skammta af skyri saman í einni pakkningu og jafnvel að selja skyrið umbúðalaust en með því sparast hellingur af umbúðum. Með Frosta Skyr er hægt að sporna gegn matarsóun með því að þurrka skyr sem komið er á síðasta söludag og gefa því þannig nýtt líf.
Í þriðja sæti í Eurovision matvælanna
Þær Guðrún Alfa og Aníta Þórunn voru jafnframt valdar til að vera fulltrúar Íslands í hinni árlegu keppni Ecotrophelia Europe, sem opin er háskólanemum um alla Evrópu, en úrslit keppninnar fóru fram um liðna helgi. „Þetta er keppni í vistvænni nýsköpun matvæla og svipar að mörgu leyti til Eurovision. Þetta árið var keppnin haldin í París en þátttakendur kynntu vörur sínar rafrænt vegna kórónuveirufaraldursins. Lið frá þrettán löndum í Evrópu tóku þátt og kynntu mjög fjölbreytta flóru af frumlegum matvælum. Við tókum 3. sætið í keppninni og er það jafnframt besti árangur Íslands frá upphafi,“ segir Guðrún Alfa enn fremur.
Þær stöllur segja að þátttaka í báðum keppnunum hafi verið ótrúlega skemmtileg og veitt þeim dýrmæta reynslu. „Það er mikil hvatning fyrir okkur að hafa landað 3. sæti í báðum keppnum. Það sýnir jafnframt að Frosti Skyr á möguleika á markaðnum og að við séum á réttri leið. Jákvæð umfjöllun hefur skapast í kjölfarið og hefur verið gaman að sjá hversu vel tilvonandi viðskiptavinir hafa tekið í vöruna,“ segir Aníta Þórunn en hluti af vöruþróuninni er að sjálfsögðu að kanna hvernig fólki líkar við hana.
Stefna með vöruna á markað á næsta ári
Aníta Þórunn og Guðrún Alfa segja aðspurðar að framtíðaráformin með vöruna séu margþætt en fyrst á dagskrá sé að koma henni á markað á næsta ári. „Stefnan er að auðvelda útflutning á íslensku skyri, að selja umbúðalaust skyr í fyrsta sinn og halda áfram þróun á vörulínunni Frosti Skyr. Okkar helsta markmið er að framleiða hágæða og bragðgóða vöru sem neytendur þekkja og treysta,“ segir Guðrún Alfa að endingu.
Háskóli Íslands óskar þeim Anítu Þórunni Þráinsdóttur og Guðrúnu Ölfu Einarsdóttur innilega til hamingju með viðurkenningarnar og áframhaldandi velgengni í verkefninu.
Instagram reikningur Frosta skyr: @frostiskyr.
Einnig er hægt að hafa samband á frostiskyr@gmail.com