Mæðgur rýndu í nýsköpun í öldrunarþjónustu í MBA-námi
Fjölgun aldraðra í samfélaginu á næstu áratugum varð mæðgunum Díönu Óskarsdóttur og Karen Helgu Díönudóttur innblástur að lokaverkefni til MBA-gráðu frá Háskóla Íslands í vor en þær tóku saman við brautskráningarskírteinum sínum um miðjan júní. „Fjölgun aldraðra krefst aukins skilnings á því hvernig best sé að mæta flóknum þörfum þessa hóps í framtíðinni og leitast rannsókn okkar við að skoða og greina möguleika á nýsköpun í öldrunarþjónustu,“ segja mæðgurnar sem báðar starfa innan heilbrigðiskerfisins.
Það er sannarlega ekki á hverjum degi sem mæðgur útskrifast á sama tíma úr námi við HÍ, hvað þá að þær fylgist að í tvö ár í sama náminu. Díana og Karen innrituðust í MBA-námið haustið 2022, en það kom m.a. til að þeirra sögn vegna þess að Karen hafði aukinn tíma eftir að hafa hætt handboltaiðkun þá um vorið. „Mamma var að íhuga að fara í nám og við sáum þá tækifæri til að skella okkur saman og sitjum því hlið við hlið í MBA-námi í Háskóla Íslands,“ sögðu þær í viðtali á vef MBA-námsins í upphafi árs 2023.
Karen starfar sem aðstoðardeildarstjóri aðfangaþjónustu Landspítala en Díana er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og að þeirra sögn sátu þær ekki bara í tímum saman heldur lærðu einnig saman. „Við erum nánar og þetta skemmir það ekki. Við erum gott teymi,“ segir Díana.
Rannsóknin innlegg í samfélagsumræðuna
Þegar kom að því að velja lokaverkefni í MBA-náminu sóttu þær mæðgur í rann reynslunnar úr vinnu sinni og jafnframt í samfélagsumræðuna en mikið hefur verið rætt um fjölgun hjúkrunarrýma og annarra lausna í öldrunarþjónustu til að mæta vaxandi eftirspurn samfara öldrun þjóðarinnar.
Að mati þeirra mæðgna hefur umræðan í samfélaginu einkum beinst að því sem skortir í kerfinu, fleiri hjúkrunarrýmum, auknu fjármagni, fleira starfsfólki og auknum tíma til umönnunar. „Þessari stöðu sem upp er komin í öldrunarþjónustunni hefur stundum verið lýst sem neyðarástandi af stjórnmálafólki og almenningi. Slík staða kallar á nýjar nálganir og er rannsóknin okkar innlegg í þessa umræðu,“ segir Karen.
Er grundvöllur fyrir þjónustu sem aldraðir greiða eingöngu sjálfir?
Markmið rannsóknarinnar var því að sögn Díönu að „að kanna hvort grundvöllur er fyrir öldrunarþjónustu á Íslandi þar sem eldri borgarar, skilgreindir sem 67 ára og eldri, eru virkir þátttakendur í fjármögnun og ákvarðanatöku um þá þjónustu sem þeir þiggja. Hugmyndin okkar gerir m.a. ráð fyrir fjölbreyttri þjónustu í samfélagi þar sem aðstaðan er hönnuð með þarfir aldraðra í huga og á þjónustan að stuðla að auknum lífsgæðum skjólstæðinganna.“
„Það er von okkar að rannsóknin verði til þess að örva bæði framboð og þróun á úrræðum í öldrunarþjónustu og þar með bæta lífsgæði eldri borgara á Íslandi,“ segja þær Díana og Karen. MYND/Kristinn Ingvarsson
Í lokaverkefninu, sem unnið var undir leiðsögn Gylfa Magnússonar, prófessors við Viðskiptafræðideild og kennara í MBA-náminu, bjuggu mæðgurnar til viðskiptalíkan fyrir öldrunarþjónustu sem felur í sér búsetuúrræði með umönnunarþjónustu. „Þessi nálgun miðast við þarfir hvers einstaklings í samfélagi sem heldur utan um alla íbúa og tryggir jafnframt sjálfstæði þeirra og öryggi. Viðskiptalíkanið byggist alfarið á að búseta og þjónusta verði að fullu fjármögnuð af notendum þjónustunnar án aðkomu ríkisins,“ útskýrir Díana.
Að sögn Karenar er markmið þjónustunnar ekki aðeins að veita hágæða búsetu og umönnun heldur einnig að skapa samfélag eldri borgara þar sem aldraðir geta notið lífsins til fulls í aðstöðu sem er hönnuð með það að leiðarljósi að hún veiti stuðning við aðlögun að breyttum þörfum í takt við öldrun, allt frá sjálfstæðri búsetu yfir í umfangsmeiri umönnun innan sömu aðstöðu. „Rík áhersla er lögð á að ýta undir félagslega virkni með reglulegum viðburðum og þátttöku íbúanna til að koma í veg fyrir einangrun. Með þessari nálgun er stefnan að bæta lífsgæði aldraðra og stuðla að virkri þátttöku þeirra í samfélaginu,“ segir hún.
Áskoranir einkareksturs margþættar
Aðspurðar um niðurstöður rannsóknarinnar segir Karen að þær styðji við hugmyndina um að einkarekstur í öldrunarþjónustu geti veitt hagkvæma, sjálfbæra og skilvirka þjónustu sem mætir þörfum aldraðra og hefur jákvæð áhrif á lífsgæði á efri árum. „Jafnframt undirstrika niðurstöðurnar þá gríðarlegu þörf sem er fyrir frekari nýsköpun í þjónustu við aldraða sem getur dregið úr álagi á opinbera þjónustu og haft jákvæð áhrif á gæði og framboð öldrunarþjónustu á Íslandi,“ segir Karen.
Þrátt fyrir þessar niðurstöður nefna mæðgurnar að það séu margþættar áskoranir sem fylgja einkarekstri. Þær krefjist vel ígrundaðrar stefnumótunar og ákvarðana þar sem horft sé til gæða og aðgengi að þjónustu. „Siðferðilegar áskoranir, eins og réttlæti í aðgengi, krefjast gagnrýninnar skoðunar og opinnar umræðu á milli stjórnvalda, heilbrigðisstofnana og almennings,“ segir Díana. Að þeirra mati sé nauðsynlegt að meta árangur og langtímaáhrif einkareksturs á öldrunarþjónustu til að tryggja að slík þjónustuúrræði stuðli að bættum lífsgæðum aldraðra án þess að skerða möguleika þeirra sem þurfa á hjálp að halda en búa við takmarkaða fjárhagslega getu.
„Það er von okkar að rannsóknin verði til þess að örva bæði framboð og þróun á úrræðum í öldrunarþjónustu og þar með bæta lífsgæði eldri borgara á Íslandi,“ segja þær Díana og Karen að lokum.