Lýsa yfir áhyggjum af vaxandi þrýstingi á akademískt frelsi og sjálfstæði háskóla

Rektorar allra íslensku háskólanna samþykktu fundi sínum 24. júní síðastliðnum yfirlýsingu þar sem þeir staðfesta grundvallarmikilvægi akademísks frelsis og sjálfstæði stofnana fyrir framgang þekkingar, eflingu lýðræðis og þróun samfélaga. Um leið lýsa þeir yfir miklum áhyggjum að því sótt sé að þessum grundvallarstoðum háskólastarfs víða um heim.
Rektorar háskólanna sjö á Íslandi hittust á vettvangi Samstarfsnefndar háskólastigsins í vikunni þar sem yfirlýsingin var m.a. til umræðu. Í henni er undirstrikað að akademískt frelsi sé hornsteinn háskóla- og rannsóknastarfs. „Það felur í sér rétt fræðimanna til að leita sannleikans og þekkingar án óeðlilegra afskipta, til að kenna og ræða hugmyndir frjálst og til að miðla niðurstöðum rannsókna án ótta við ritskoðun eða refsiaðgerðir. Þetta frelsi er lykilatriði til að hlúa að gagnrýninni hugsun, nýsköpun og öflugum skoðanaskiptum sem eru undirstaða lýðræðissamfélaga,“ segir í yfirlýsingunni.
Rektorarnir víkja einnig að stofnanalegu sjálfstæði háskóla í yfirlýsingunni. Það felur sér að háskólum sé gert kleift að stjórna sér sjálfir og tryggja að fræðileg markmið séu sett á grundvelli vísindalegra verðleika fremur en pólitískra eða viðskiptalegra hagsmuna. „Þetta sjálfstæði er nauðsynlegt til að viðhalda heilindum og trúverðugleika háskólastofnana og gerir þeim kleift að leggja fram sinn veigamikla skerf til samfélagslegra og tæknilegra framfara og takast á við hnattrænar áskoranir á borð við loftslagsbreytingar og lýðheilsu,“ benda rektorarnir á í yfirlýsingunni.
Þá lýsa þeir yfi miklum áhyggjum af vaxandi pólitískum afskiptum, ritskoðun og innleiðingu hugmyndafræðilegra sjónarmiða sem ógni bæði akademísku frelsi og sjálfstæði háskóla um allan heim. Slíkir tilburðir ógni undirstöðum fræðilegra rannsókna og hlutverki háskóla sem vígjum sjálfstæðrar hugsunar og þekkingarleitar.
Rektorarnir hvetja háskóla og alla hagsmunaaðila til þess að:
- Tryggja rétt fræðimanna til að stunda rannsóknir, kenna og miðla niðurstöðum sínum án utanaðkomandi afskipta.
- Virða sjálfstæði háskóla og forðast að reisa pólitískar skorður við akademískri starfsemi.
- Styðja við samstarf háskóla þvert á landamæri og frjáls skoðanaskipti, sem eru nauðsynleg til að takast á við alþjóðlegar áskoranir og efla þekkingu.
Yfirlýsingunni lýkur á skuldbindingu rektora háskólanna sjö til að standa vörð um þessi grundvallaratriði innan sinna eigin stofnana og að beita sér fyrir því að þau séu virt á heimsvísu. „Með því að verja akademískt frelsi og sjálfstæði stofnana styrkjum við undirstöður lýðræðis og leggjum okkar af mörkum til sjálfbærrar þróunar samfélaga okkar,“ segir að endingu í yfirlýsingunni.
Þess má geta að slétt tuttugu ár eru síðan íslenskir rektorar undirrituðu sams konar yfirlýsingu um akademískt frelsi undir forystu Páls Skúlasonar, þáverandi rektors HÍ, en yfirskrift hennar var „Yfirlýsing um forsendur og frelsi háskóla“.
