Lotukennsla í meistaranámi við Viðskiptafræðideild
Frá og með haustinu 2018 verða námskeið í meistaranámi í Viðskiptafræðideild kennd í sjö vikna lotum í stað þrettán vikna kennslu yfir heilt misseri. Samhliða þessu breytist meistaranámið þannig að MS-gráður verða 120 ECTS-einingar í stað 90.
„Þessar breytingar gefa okkur tækifæri til að dýpka hvert námskeið og auka svigrúm nemenda til að takast á við raunveruleg verkefni. Við breytingarnar stækkar hvert námskeið úr 6 ECTS-einingum í 7,5 einingar. Hver nemandi tekur því tvö námskeið í hverri lotu í stað þess að vera í fimm námskeiðum eins og áður var. Markmiðið er að gefa nemendum færi á því að einbeita sér betur að færri námskeiðum í einu en ljúka hverju námskeið á styttri tíma,“ segir Magnús Þór Torfason, formaður meistaranámsnefndar Viðskiptafræðideildar.
Breytingarnar ná til allra námsleiða á meistarastigi við deildina sem eru átta talsins.
„Viðskiptafræðideild býður upp á mjög fjölbreytt úrval námskeiða og við höfum fundið fyrir miklum áhuga nemenda á því að taka fleiri námskeið en 90 eininga námsleiðirnar buðu upp á. Með því að fara samhliða út í að bjóða upp á 120 eininga MS-gráður og innleiða lotubundin námskeið komum við til móts við þær óskir. Auk þess teljum við að nemendur verði betur í stakk búnir til að takast á við þau verkefni sem þau standa frammi fyrir eftir útskrift,“ segir Magnús enn fremur.
En hvaða tækifæri felast í þessu fyrir nemendur? „Tækifærin sem opnast eru tvíþætt. Annars vegar leiða breytingar á einstökum námskeiðum til þess að nemendur geta komist meira á dýptina í hverju námskeiði og þannig endurspeglar upplifunin enn frekar þann raunveruleika sem útskrifaðir nemendur standa frammi fyrir í kjölfar náms. Hins vegar leiðir fjölgun eininga í náminu í heild til þess að hægt er að koma til móts við óskir nemenda um praktíska þekkingu sem nýtist beint í atvinnulífinu án þess að það komi niður á þeim akademíska metnaði sem einkennir gott meistaranám,“ útskýrir Magnús.
Magnús vekur sérstaka athygli á því að flestar af námsleiðum Viðskiptafræðideildar á meistarastigi verði eftir sem áður opnar fólki sem tekið hefur grunnám á öðrum fræðasviðum en viðskiptafræði. „Fólk með fjölbreyttan bakgrunn sækir í nám til okkar og það eru tækifæri fyrir marga til að bæta við sig námi sem er mikilvægt í ýmsum störfum og starfsgreinum. Ég vil hvetja þá sem eru að velta fyrir sér framhaldsnámi á sviði viðskipta og viðskiptatengdra greina að kynna sér þetta nýja tækifæri á heimasíðu deildarinnar,“ segir Magnús.
Allar þær námsleiðir sem eru í boði í framhaldsnámi við Viðskiptafræðideild má skoða hér.