Lokaritgerð á sviði Evrópufræða verðlaunuð
Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi, í samstarfi við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, veitti í dag verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð nemanda í Stjórnmálafræðideild háskólaárið 2016-2017.
Michael Mann, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, veitti verðlaunin á Háskólatorgi að viðstöddum Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands. Þessi verðlaun sendinefndar ESB eru veitt í fyrsta sinn í ár og eru hugsuð til handa nemendum sem fjalla um Evrópumál og evrópskan samruna í víðu samhengi.
Höfundur verðlaunaritgerðarinnar er Kristjana Júlía Þorsteinsdóttir, fyrrverandi meistaranemandi í alþjóðasamskiptum, og ber hún heitið „Er hæli raunhæfur möguleiki? Túlkun íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni.“
Dómnefnd á vegum Stjórnmálafræðideildar valdi ritgerðina en verðlaunin eru fjögurra daga ferð til Brussel þar sem Kristjana mun eyða degi með breska Evrópuþingmanninum Catherine Stihler, sem ætlar að kynna Kristjönu fyrir Evrópuþinginu og starfi sínu þar. Mun Kristjana meðal annars fá að sitja nefndarfundi þessarar mikilvægu stofnunar sem hefur í gegnum árin haft æ meira að segja um löggjöf Evrópusambandsins. Í ferðinni heimsækir Kristjana einnig aðrar stofnanir ESB, svo sem framkvæmdastjórnina, ráðherraráðið og utanríkisþjónustuna.
Sendiherra ESB á Íslandi, Michael Mann: „Ég óska Kristjönu Júlíu innilega til hamingju með verðlaunin og er sérstaklega ánægður með að eitt mitt fyrsta opinbera verkefni á Íslandi sé að verðlauna framúrskarandi nemanda.“
Úr umsögn dómnefndar Stjórnmálafræðideildar:
„Ritgerð Kristjönu Júlíu fjallar um túlkun og notkun íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni, sem gjarnan er vísað til þegar hælisleitendur eru sendir úr landi án efnislegrar meðferðar á umsókn þeirra hér á landi. Ritgerðin fjallar því um mál sem er mikið í opinberri umræðu og á eflaust eftir að vera það áfram til nokkurrar framtíðar. Höfundurinn skoðar annars vegar tímabilið 2001-2003, þegar Dyflinnarreglugerðin var innleidd, og hins vegar 2014-2016, þegar mikil aukning hafði orðið á fjölda flóttafólks í Evrópu. Markmið verkefnisins eru skýr og kenningagrunnur sömuleiðis. Niðurstöður Kristjönu Júlíu eru að túlkun íslenskra stjórnvalda á Dyflinnarreglugerðinni sé mjög þröng og þótt ítrekað hafi verið rætt á þingi að hún skapi heimild en ekki skyldu, virðist hún oftast túlkuð sem regla. Ritgerðin veitir góða yfirsýn og vandaða greiningu á mikilvægu málefni.“
Verðlaun sendinefndar Evrópusambandsins eru ein af þremur sem nemendur innan Stjórnmálafræðideildar HÍ geta hlotið fyrir framúrskarandi lokaritgerðir. Félag stjórnmálafræðinga veitir árlega verðlaun fyrir lokaritgerðir í gunn- og framhaldsnámi í stjórnmálafræði hér á landi. Stjórnmálafræðideild í samvinnu við Alþjóðamálastofnun HÍ og breska sendiráðið í Reykjavík veitir einnig verðlaun fyrir lokaritgerð á sviði sviði öryggis- og varnarmála, rannsókna á utanríkismálum Norðurlandanna og norðurslóðarannsókna í minningu Alyson Bailes sem var kennari við deildina um árabil.
Kristjana Júlía Þorsteinsdóttir brautskráðist með meistarapróf í alþjóðasamskiptum í júní 2017. Leiðbeinandi hennar í meistararitgerðinni var Silja Bára Ómarsdóttir, aðjunkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.