Ljóð Hannesar Hafstein í enskri þýðingu
Út er komin bókin Ólgublóð / Restless Blood, úrval ljóða Hannesar Hafstein ásamt enskum þýðingum Júlíans D’Arcys, prófessors emeritus í ensku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, og Ástráðs Eysteinssonar, prófessors í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ástráður ritar einnig eftirmála.
Einungis tvítugur að aldri steig Hannes Hafstein fram sem nýtt afl í íslenskum skáldskap. Ljóð hans þóttu einkennast af krafti, raunsæi og hispursleysi sem hristi upp í viðtekinni skáldskapartjáningu. En í þeim búa einnig innri átök sem settu svip sinn á feril hans sem stjórnmálamanns og fyrsta ráðherra Íslands í byrjun 20. aldar; spennu milli einstaklingsfrelsis og samfélagsábyrgðar og á milli alþjóðlegrar nútímavæðingar og rótgróinna tengsla við ættjörðina. Þau 35 ljóð sem birtast í þessari tvímála bók endurspegla fjölbreytnina í skáldskap hans sem mótast með ýmsum hætti af ólgu tilfinningaverunnar andspænis náttúrunni, samskiptum kynjanna, íslenskri sögu og þjóðfélagi á tímamótum.
Ólgublóð / Restless Blood er gefin út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfunni og styrkt af Hollvinafélagi Hannesarholts og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Ritstjóri bókarinnar er Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.
Júlían Meldon D’Arcy er prófessor emeritus við Háskóla Íslands, þar sem hann kenndi enskar, skoskar og bandarískar bókmenntir í meira en 40 ár. Auk fræðibóka og greina sem eftir hann liggja, hefur hann þýtt fjölmargar íslenskar bækur á ensku, þ.m.t. skáldsögur, smásögur, ljóð, sjálfsævisögur, barnabækur og fræðirit, t.d. Söguna af bláa hnettinum eftir Andra Snær Magnússon, skáldsöguna Leigjandann og safn smásagna eftir Svövu Jakobsdóttur, Steinarnir tala eftir Þórberg Þórðarson og Jökla Íslands eftir Helga Björnsson.
Ástráður Eysteinsson hefur verið prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands síðan 1994, auk þess að hafa verið gestaprófessor við nokkra erlenda háskóla. Hann hefur sinnt kennslu og rannsóknum í nútímabókmenntum, bókmenntakenningum, þýðingum og viðtökufræði, og birt fræðirit á þessum sviðum. Einnig hefur hann þýtt skáldverk úr þýsku og ensku á íslensku, meðal annars megnið af sagnaverkum Franz Kafka í samstarfi við Eystein Þorvaldsson.
Júlían og Ástráður þýddu fyrir nokkrum árum saman ljóðabókina Hliðargötur / Sideroads eftir Jónas Þorbjarnarson á ensku. Hún birtist í tvímálaútgáfu árið 2011 á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og Háskólaútgáfunnar.