Skip to main content
24. mars 2025

Leitað að hugmyndum grunnskólanema um draumastörf, menntun og framtíðarsýn

Leitað að hugmyndum grunnskólanema um draumastörf, menntun og framtíðarsýn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Könnunin Okkar framtíð stendur nú yfir en þar gefst öllum grunnskólabörnum á Íslandi tækifæri á að senda inn teikningar og svör um draumastörf sín og framtíðarsýn. Könnunin er hluti af verkefninu Stækkaðu framtíðina sem hefur það markmið að tengja saman fólk á vinnumarkaði við skólastofur landsins og veita börnum og ungmennum innsýn í menntunar- og atvinnumöguleika til framtíðar.  

„Með könnuninni viljum við fá innsýn í drauma barna og ungmenna og væntingar þeirra til framtíðarinnar, starfsframa og menntunar og skoða hvað hefur áhrif á val þeirra eða hindrar þau í að fylgja draumum sínum,“ segir Ragna Skinner, verkefnisstjóri Stækkaðu framtíðina á Íslandi og starfsmaður Háskóla Íslands. 

Markmiðið að ná til allra barna á landinu 

Okkar framtíð er tvískipt í takt við ólíka aldurshópa í grunnskólum: 

  • Teiknaðu framtíðina er ætluð börnum í 1.-7. bekk og felst í því að þau teikna myndir af draumastörfum sínum og svara stuttum spurningum út frá teikningunum um væntingar sínar og fyrirmyndir. 
  • Börn og ungmenni í 8.-10. bekk svara rafrænni könnun sem kallast „Þín rödd“ þar sem þau fá tækifæri til að skrifa um framtíðarsýn sína, áhugamál og styrkleika. Könnunin byggist á alþjóðlegum ramma þróuðum af rannsóknardeild Education and Employers, en það eru góðgerðarsamtök sem standa að Inspiring the Future, fyrirmynd Stækkaðu framtíðina í Bretlandi. 

Öllum grunnskólum á landinu hefur verið boðin þátttaka í könnuninni en markmiðið er að ná til allra nemenda í 1.-10. bekk. Teiknaðu framtíðina hefur verið lögð fyrir um 20.000 nemendur á yngsta stigi grunnskóla í 20 löndum víðs vegar um heiminn en með Okkar framtíð verður Ísland fyrsta landið til að safna svörum nemenda á öllum stigum grunnskóla. 

Mikill munur á starfsáhuga barna á landsbyggð og höfuðborgarsvæðinu

Breska sendiráðið á Íslandi hefur einnig staðið fyrir könnun um framtíðarsýn barna á Íslandi síðustu tvö ár. Könnunin hefur náð til tæplega 800 barna á aldrinum 6-12 ára víða um land og sýnir að börn verða fyrir miklum áhrifum af því sem þau sjá og upplifa í kringum sig og því sem þau sjá í sjónvarpinu, á netinu og samfélagsmiðlum. Niðurstöðurnar benda jafnframt til þess að mikill munur sé á starfsáhuga barna á landsbyggðinni annars vegar og höfuðborgarsvæðinu hins vegar þar sem starfsáhugi er fjölbreyttari. Okkar framtíð er ætlað að varpa enn frekara ljósi á þessar niðurstöður.

„Við hvetjum alla grunnskóla landsins til að taka þátt og gefa nemendum í 1.-10.bekk tækifæri til að tjá sig um framtíð sína og segja frá því sem skiptir þau mestu máli. Við viljum heyra frá öllum börnum og ungmennum því hugmyndir þeirra, vonir og áskoranir eru lykillinn að því að skapa betri framtíð fyrir okkur öll,“ segir Ragna. 

Niðurstöður geta nýst vinnumarkaðnum og stefnumótun í menntamálum 

Niðurstöðurnar úr Okkar framtíð munu veita mikilvæga innsýn í framtíðarsýn barna og ungmenna á Íslandi og málefni eins og  fjölskyldu, jafnrétti og samfélagslegar áskoranir. Þær verða nýttar til þess að halda áfram að þróa og móta verkefnið Stækkaðu framtíðina og aðlaga það enn betur að íslensku menntakerfi og vinnumarkaði. Þær geta jafnframt gagnast í stefnumótun í menntamálum og stutt vinnumarkaðinn í að mæta starfsvæntingum barna og ungmenna en með niðurstöðunum má mögulega sjá hvaða störf verða eftirsótt í náinni framtíð.

Niðurstöðurnar verða kynntar opinberlega ásamt skemmtilegri sýningu á teikningum, textum og myndböndum nemenda. 

„Við hvetjum alla grunnskóla landsins til að taka þátt og gefa nemendum í 1.-10.bekk tækifæri til að tjá sig um framtíð sína og segja frá því sem skiptir þau mestu máli. Við viljum heyra frá öllum börnum og ungmennum því hugmyndir þeirra, vonir og áskoranir eru lykillinn að því að skapa betri framtíð fyrir okkur öll,“ segir Ragna. 

Nánar um Stækkaðu framtíðina

Stækkaðu framtíðina tengir fólk af vinnumarkaði við skólastofur landsins en þar gefst áhugasömum tækifæri til að segja nemendum frá starfi sínu og menntun. Þannig víkkar sjóndeildarhringur nemenda og þeir kynnast jafnvel fyrirmyndum til framtíðar. Heimsóknirnar geta farið fram í skólastofunni eða í gegnum netið, sem gerir verkefnið aðgengilegt fyrir öll.  

Stækkaðu framtíðina var sett af stað í febrúar 2024 og er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Breska sendiráðsins, Menningar- nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins og Mennta- og barnamálaráðuneytisins. 

Teikning nemenda tengd Okkar framtíð

Könnunin Okkar framtíð stendur nú yfir en þar gefst öllum grunnskólabörnum á Íslandi tækifæri á að senda inn teikningar og svör um draumastörf sín og framtíðarsýn.